• Meta_team

Á meðal helstu frumkvöðla og brautryðjenda í Evrópu í sjálfbærri þróun

Verkefnið Metamorphosis er tilnefnt til EIT Innovators Awards 2018

16.8.2018

Nýverið tilkynnti EIT (The European Institute og Innovation and Technology) þau verkefni og einstaklinga sem hlutu tilnefningu í ár til EIT verðlaunanna. Þar er horft sérstaklega til verkefna sem stuðla að nýsköpun með nýstárlegum vörum, verkefnum og þjónustu þar sem tekist er á við alþjóðlegar áskoranir eins og loftlagsmál, orkumál, matvæli og heilsu. Á meðal tilnefninga í ár er verkefnið Metamorphosis sem Birgir Örn Smárason hjá Matís leiðir.

Í verkefninu Metamorphosis er unnið að því að breyta lífrænum úrgangi í verðmætt hráefni til að nýta í fiskeldisfóður. Skortur á próteinríku fóðri hefur kallað eftir nýjum lausnum til að mæta vaxandi eftirspurn iðnaðarins. Yfir helmingur allra fisktegunda er nú ræktaður með fiskeldi og er líklegt að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu 15 árum. Rannsóknir hafa sýnt að skordýr henta mjög vel í fóðurframleiðslu fyrir fisk, en margar skordýrategundir hafa þann eiginleika að geta breytt lífrænum úrgangi í fæðu sem er rík af fitum og próteinum. Verkefnið skoðar sérstaklega þróun á nýju fóðurhráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta til að bregðast við auknum próteinskorti í Evrópu með sjálfbærum hætti.


Verðlaunaafhendingin fer fram í Búdapest þann fjórða október næstkomandi á hinu árlega fumkvöðlamálþingi EIT, INNOVEIT . Tilnefningarnar eru alls 41 og samanstanda þær af helstu frumkvöðlum og brautryðjendum í Evrópu í sjálfbærri þróun.


Hér má sjá lista yfir allar tilnefningarnar í ár.
Fréttir