• FP7, Horizon 2020, Industrial Leadership, Sicentific Excellence, Grand Challanges

Mjög góðar niðurstöður úr þjónustukönnun Matís

6.6.2016

Með reglulegu millibili er lögð þjónustukönnun fyrir viðskiptavini örveru og efnamælinga, þjónustu sem boðið er upp á innan mæliþjónustusviðs Matís. Síðasta könnun var lögð fyrir viðskiptavini fyrir stuttu síðan og óhætt er að segja að viðskiptavinir Matís kunni að meta þá þjónustu sem fyrirtækið býður upp á. 

Niðurstöðurnar gefa góða heildarmynd af viðhorfi viðskiptavina Matís til þessarar þjónustu fyrirtækisins. Ef nokkur dæmi eru tekin úr niðurstöðunum þá voru viðskiptavinir mjög sammála um að Matís hefði staðist væntingar hvað varðar gæði og öryggi niðurstaðna, sömuleiðis mjög sammála um að afgreiðsluhraði hafi verið góður og mjög sammála um að starfsmenn hafi þá þekkingu og reynslu sem leitað var eftir. Auk þess voru viðskiptavinir mjög sammála um að viðmót starfsmanna Matís sé ánægjulegt, svo nokkur dæmi séu tekin. 

Þetta eru sannarlega góðar niðurstöður og eru Matís mikil hvatning. Jafnframt er þetta hvatning um að gera betur og þjónusta viðskiptavini okkar enn betur en nú er gert.

Heildar niðurstöður.

Ýmsar góðar og athyglisverðar athugasemdir bárust frá viðskiptavinum og verður reynt að bregðast við þeim eins og hægt er. Helstu athugasemdirnar sneru að eftirfarandi atriðum:

  • Athugasemdir bárust um útfærslu á könnuninni. Fram komu ábendingar um að meiri sundurliðun á viðskiptavinum hefði verið æskileg og verður það haft í huga við skipulagningu á næstu þjónustukönnun.
  • Óskir um fleiri tegundir af efnamælingum komu fram. Þó mikill og fullkominn tækjabúnaður sé til hjá Matís, er ekki hægt að koma algjörlega til móts við allar óskir, en hins vegar geta starfsmenn Matís fundið út og haft milligöngu um að senda sýni á systurstofnanir erlendis í þeim tilvikum sem ekki er hægt að bjóða upp á viðkomandi rannsókn hér heima.
  • Athugasemdir um viðmiðunarreglur og túlkun á niðurstöðum. Ekki er unnt að senda viðmiðunargildi út með niðurstöðum en viðskiptavinir eru hvattir til að hafa samband annað hvort með tölvupósti eða símleiðis, og er starfsmönnum bæði ljúft og skylt að aðstoða á allan þann hátt sem þeir eru færir um. Bæði hvað varðar túlkun og mat á niðurstöðum.
  • Athugasemd um að Matís kæmi sér upp notendasvæði, þar sem viðskiptavinur hefði aðgang að öllu varðandi sínar rannsóknir.  Þetta væri vissulega hægt og er bæði metnaðarfullt og spennandi en jafnframt kostnaðarsamt  verkefni sem vonandi verður að veruleika í framtíðinni.
  • Óskað var eftir uppfærslu á beiðnablöðum, en það er atriði sem verið er að vinna í.
  • Auk þess fékk Matís ánægjulegar athugasemdir þar sem þakkað var fyrir góða þjónustu, og kom greinilega fram að mikil ánægja er með þjónustu starfsstöðvar Matís í Neskaupstað.

Fréttir