• Laxadiskur

Rf óskar eftir þátttakendum í neytendakönnun

22.2.2005

Rf er aðili að viðamikilli, alþjóðlegri rannsókn á fiskneyslu, sem gerð verður samtímis í fjórum löndum á næstu vikum. Auk Íslands fer könnunin samtímis fram í Danmörku, Hollandi og á Írlandi. Rf óskar eftir fólki til að taka þátt í könnuninni hér á landi. 

Könnunin er hluti af Evrópuverkefninu SEAFOODplus, en það er umfangsmikið verkefni um heilnæmi sjávarafurða sem ESB styrkir. Markmiðið með SEAFOODplus er að stuðla að bættri heilsu og velferð neytenda í Evrópu með því að auka neyslu á fiski, rannsaka áhrif fisks á heilsu og vellíðan fólks og stuðla að auknu öryggi og neyslugæðum sjávarafurða. SeafoodSense er verkefni innan SEAFOODplus og er markmið verkefnisins að stuðla að bættum gæðum sjávarfangs fyrir neytendur.

Könnunin beinist að tveimur fisktegundum (þorsk og laxi) og fer fram á fjórum, fyrirfram ákveðnum dögum, 10. og 17. mars og 7. og 14. apríl.  Leitað er að fólki frá 18 ára aldri og eldra til að taka þátt í könnuninni.  Þátttakendur verða beðnir um að koma á Rf á Skúlagötu 4 á ákveðnum tímum.  

Reynt verður að koma til móts við væntanlega þátttakendur og þeim boðið að koma á þeim tímum sem hentar þeim best þá fjóra daga sem um ræðir.   Hver þátttakandi mun því þurfa að mæta alls fjórum sinnum til að smakka fisk og tekur könnunin rúman hálftíma í hvert skipti.  Í síðasta skiptið verður fólk beðið um að svara nokkrum almennum spurningum og að lokum fá þátttakendur gjafabréf að upphæð 2500 kr.

 

Frekari upplýsingar og skráning þátttöku:

fisk@rf.is  eða í síma 864 4644 (Kolbrún)
Fréttir