• Frostin fiskstykki

Athyglisverðu meistaraverkefni um geymslu og flutning frystra sjávarafurða lokið

25.2.2005

Á morgun, laugardag, mun Hlynur Þór Björnsson útskrifast með meistarapróf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Meistaraverkefni hans nefnist “Geymsla og flutningur. Lágmörkun hríms og rekjanleiki” og var það m.a. styrkt af Rf.

Verkefni Hlyns var tvíþætt: Annars vegar að hanna stýringu á ferli afurða til að lágmarka hrímmyndun og hins vegar að greina geymslu- og flutningaferlið út frá s.k. Tracefish-staðli, en það er staðall um rekjanleika á sjávarafurðum.

Markmið verkefnisins var að auka verðmæti lausfrystra sjávarafurða með því að draga úr tjóni og verðfellingu sem verður á afurðum vegna hríms í umbúðum. Með notkun nákvæmra hitamæla í frystigeymslum og -gámum var fylgst með hitasveiflum og þær kortlagðar til að hægt væri að sjá hvar og hvenær sveiflur í hitastigi væru mestar, en sveiflur í hitastigi í frystigeymslum er ein aðalorsök hrímmyndunar.

Í verkefninu var einnig unnið að því tryggja rekjanleika afurðanna og upplýsingagjöf allt frá framleiðslu þeirra og þar til þær koma á markað.

Sem fyrr segir styrkti Rf verkefnið og var það unnið m.a. undir leiðsögn sérfræðinga stofnunarinnar. Aðrir styrktaraðilar verkefnisins voru Eimskip, Brim, HB-Grandi og AVS-sjóðurinn.
Fréttir