• Þátttakendur í neytendakönnun

Alþjóðleg neytendakönnun á fiskneyslu hafin á Rf

10.3.2005

Í morgun hófst alþjóðleg neytendakönnun á fiskneyslu og fer hún fram í Danmörku, Hollandi og á Írlandi, auk Íslands. Rf sér um framkvæmd könnunarinnar hér á landi, en vonast er til að hún muni gefa góðar upplýsingar um hvernig best er að standa að bættum gæðum sjávarfangs fyrir neytendur.

Að sögn Emilíu Martinsdóttur, deildarstjóra Neytenda- og öryggishóps á Rannsóknasviði Rf, var fyrir nokkru auglýst eftir þátttakendum 18 ára og eldri til að taka þátt í könnuninni og voru undirtektirnar vonum framar, sérstaklega þar sem þátttakendur þurftu að skuldbinda sig til að mæta fjórum sinnum. Könnunin beinist að tveimur fisktegundum (þorsk og laxi) og fer fram dagana 10. og 17. mars og 7. og 14. apríl.

Könnunin er hluti af Evrópuverkefninu SEAFOODplus, en það er umfangsmikið verkefni um heilnæmi sjávarafurða sem ESB styrkir. Markmiðið með SEAFOODplus er að stuðla að bættri heilsu og velferð neytenda í Evrópu með því að auka neyslu á fiski, rannsaka áhrif fisks á heilsu og vellíðan fólks og stuðla að auknu öryggi og neyslugæðum sjávarafurða.  
Fréttir