• Margret_Geirsdottir

Hin hliðin á fiskinum: Athyglisverð grein frá Rf í Morgunblaðinu

30.3.2005

Fáir efast lengur um heilnæmi fisks, en hingað til hefur athyglin að mestu beinst að lýsi og jákvæðum áhrifum fjölómettaðra fitusýra, sem er að finna í lýsi og holdi margra feitra fisktegunda. Í Morgunblaðinu í dag birtist athyglisverð grein eftir Margréti Geirsdóttur, matvælafræðing á Rf, þar sem hún fjallar um rannsóknir á því hvort vinna megi lífvirk peptíð úr sjávarfangi, en segja má að lífvirk peptíð sé hin hliðin á heilnæmi fisks.   

Eitt af því sem Margrét segir í grein sinni er að rannsóknir benda ótvírætt til þess að fólk sem borðar fisk a.m.k. tvisvar í viku sé í minni hættu á að fá ýmsa hættulega sjúkdóma en þeim sem borða fisk sjaldnar. En jafnframt bendir hún á að ekki taki allir inn lýsi reglulega og að margt fólk sem tekið hefur þátt í rannsóknum þar sem jákvæð áhrif fiskneyslu hafa greinilega komið í ljós neytir aðallega hvíts og magurs fisks, en hvítur fiskur (t.d. þorskur og ýsa) hefur litla fitu í fiskholdinu. 

Margrét segir að þetta hafi vakið upp spurningar um hvort hin jákvæðu áhrif fiskneyslu megi rekja til fleiri þátta heldur en fitusýrusamsetningarinnar einnar, hvort það sé fleira í fiski sem hefur þessi heilnæmu áhrif og jafnframt hvort hægt sé að vinna þessi efni úr fiski (líkt og gert er með lýsi) og nota síðan í matvælaframleiðslu. 

Þegar eru komnar á markað sýrðar mjólkurafurðir sem innihalda lífvirk peptíð og benda rannsóknir til að reglubundin notkun þeirra geti lækkað blóðþrýsting. Á Íslandi er t.d. komin á markað afurð hjá Mjólkursamsölunni sem heitir LH.  Notkunarmöguleikar fyrir lífvirk peptíð eru þannig taldir ýmsir, s.s. í læknisfræðilegum tilgangi, til notkunar í fæðubótarefni og sem markfæði, eins og t.d. LH er gott dæmi um.
Fréttir