• Listeria á stályfirborði

Grein frá Rf í Food Technology and Biotechnology

7.4.2005

Í fyrsta tbl. vísindaritsins Food Technology and Biotechnology (FTB) árið 2005 er að finna grein um rannsóknir á viðloðun örvera við yfirborð í vinnsluumhverfi sjávarafurða.  Höfundar greinarinnar eru tveir núverandi og einn fyrrverandi starfsmaður Rf.  

Mengun af völdum örvera er einn mikilvægasti þátturinn þegar horft er á áhrif meðhöndlunar í gegnum vinnsluferilinn frá hafi til maga á öryggi sjávarafurða. Örverumengun í sjávarafurðum er háð ýmsum þáttum eins og uppruna hráefnis, meðhöndlun hráefnisins, framleiðsluháttum, pökkunaraðferðum, flutningi og geymslu svo fátt eitt sé nefnt. Vinnsluumhverfið sjálft þ.e. húsnæði og búnaður hefur einnig mikil áhrif.

Þegar matvæli fara í gegnum vinnslulínu skilja þau eftir sig leifar eða óhreinindi og geta tekið upp örverur sem leynast á snertiflötum. Ef ekkert er að gert fjölga örverurnar sér það mikið að þær fara að hafa áhrif á gæði og öryggi matvælanna sem fara í gegnum vinnslulínuna. Einnig geta matvælin mengast af völdum efna, sérstaklega ef skolun eftir þrif og sótthreinsun er ábótavant.

Í fyrra kom út skýrsla á Rf sem nefnist Örverur og viðloðun þeirra við vinnsluumhverfi sjávarafurða og má segja að greinin í FTB byggist að nokkru leyti á þeim rannsóknum sem lágu að baki þeirri skýrslu. 

Höfundar greinarinnar í FTB eru Birna Guðbjörnsdóttir matvælafræðingur á Rf, Guðjón Þorkelsson, deildarstjóri á Rannsóknarsviði Rf og Hjörleifur Einarsson, prófessor við HA og fv. forstjóri Rf.   Það þykir alltaf nokkur áfangi að fá greinar birtar í viðurkenndum vísindaritum, enda þurfa vísindamenn að uppfylla strangar kröfur til að fá greinar sínar birtar á þeim vettvangi.

Lesa greinina í FTB

Lesa Rf-skýrslu 

Lesa leiðbeiningar um þrifavæna hönnun vinnslubúnaðar
Fréttir