Miðvikudagserindi 20. apríl: Erindi um ódýra próteingjafa í fiskeldi

19.4.2005

Á morgun mun Þorvaldur Þóroddsson, sjávarútvegsfræðingur og starfsmaður fiskeldishóps Rannsóknarsviðs Rf, flytja erindi um hugsanlega notkun ódýrra próteingjafa í fiskeldi.

Nýlega lauk verkefninu Ódýrir próteingjafar sem valkostur við hágæða fiskimjöl í þorskfóður sem var samstarfsverkefni Fóðurverksmiðjunnar Laxár, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Háskólans á Akureyri, Hólaskóla-Háskólans á Hólum og Hafrannsóknastofnunar. Verkefnisstjórar voru Jón Árnason og Rannveig Björnsdóttir, en framkvæmd þess var að mestu leyti í höndum Þorvalds Þóroddssonar, nemanda í rannsóknatengdu meistaranámi við Háskóla Íslands og Rf.

Vegna aukinnar eftirspurnar og minnkandi framboðs verður aðgangur að fiskimjöli og –lýsi væntanlega eitt stærsta viðfangsefnið sem blasir við fiskeldisiðnaði á næstu árum. Ef framleiðsluspár ganga eftir þarf fiskeldisiðnaðurinn á allri fiskilýsisframleiðslu heimsins að halda eftir aðeins 7-10 ár.

Enginn annar fitugjafi er eins innihaldsríkur af ómega-3 fitusýrum og fiskimjöl og -lýsi og eldisfiskur þarf nauðsynlega á þessum fitusýrum að halda.  Í eldi flestra sjávarfiska er uppistaða próteina í fóðri úr fiskimjöli, enda er næringarinnihald þess mjög líkt næringarþörf þeirra.  Mjög er nú leitað eftir ódýrum próteingjöfum sem leyst geta fiskimjöl og -lýsi af hólmi að einhverju leyti sem fóður í fiskeldi, án þess að það komi niður á gæðum eldisfisksins.

Þorvaldur starfar fyrir Rf á Akureyri og mun flytja erindi sitt í gegn um fjarfundabúnað.  Hægt verður að fylgjast með erindinu með því að koma í heimsókn á starfsstöðvar Rf.  Miðvikudagserindi Rf eru á dagskrá milli kl. 9:30 - 10.

 

Skoða glærur


Fréttir