Ráðstefna um skynmat í Madríd

2.6.2005

Dagana 25. og 26. maí 2005 var haldin ráðstefna um skynmat í Madríd á Spáni. Samtökin European Sensory Network sem Rf er aðili að, skipulagði ráðstefnuna í samvinnu við Food Technology Insitute, sem er spænsk matvælastofnun í eigu þarlendra matvælafyrirtækja.

Ráðstefnuna sóttu alls 120 manns aðallega úr spænska matvælaiðnaðinum en einnig frá framleiðslufyrirtækjum annars staðar að. Fjallaði ráðstefnan að hluta til um hvernig nota má skynmat í öðrum iðnaði en matvælaiðnaði, svosem í snyrtivöruframleiðslu, bílaiðnaði o.s.frv. Í fyrirlestrum var meðal annars kynnt hvernig bílaframleiðendur nota skynmat til að komast að því hvaða kröfur skal gera til áklæða í bílum, hvernig nota má skynmat til að velja hljóð í farsíma og hvernig skynmat er notað í neytendarannsóknum snyrtivöruframleiðenda. Fyrri hluti ráðstefnunnar var í fyrirlestraformi en síðan voru haldin einskonar ,,workshop’’ þar sem þátttakendum var skipt í hópa til að vinna ákveðin verkefni.

Rf sá um vinnuhóp er laut að skynmati í gæðaeftirliti ásamt matvælastofnuninni Campden & Chorleywood, Hungary sem er útibú frá Campden & Chorleywood í Bretlandi. Var gæðastuðulsaðferðin QIM notuð sem dæmi þar.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og European Sensory Network má finna á heimasíðu samtakanna.
Fréttir