• Ásta Margrét Ásmundsdóttir

Nýr starfsmaður

8.6.2005

Nýr starfsmaður, Ásta Margrét Ásmundsdóttir, hóf störf á RF 1. júní síðastliðinn. Hún mun starfa við uppbyggingu nýs rannsóknarsviðs innan RF er snýr að þrávirkum efnum í sjávarfangi sem verður staðsett á Akureyri.

Með tilkomu þessa nýja sviðs skapast tækifæri til að bæta við störfum á sviði rannsókna og byggja enn frekar upp sérfræðiþekkingu og sérhæfða rannsóknarstarfsemi á landsbyggðinni. RF hefur komið sér upp góðri aðstöðu í nýja rannsóknarhúsinu Borgum og mun fljótlega verða keyptur tækjabúnaður til þess að geta sett upp aðstöðu til mælinga og rannsókna á þessum efnum.

Kröfur um öryggi og heilnæmi sjávarafurða hafa aukist á undanförnum árum og munu aukast enn frekar í framtíðinni, þar sem reglugerðum fjölgar og sett verða ný leyfileg mörk (hámarksgildi) um öll helstu efni og örverur, sem ógnað geta heilsu neytenda. Töluvert er um misvísandi upplýsingar þegar fjallað er um sjávarafurðir. Neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum og áróður gegn íslenskum sjávarafurðum getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd afurða sem tekið hefur áratugi að byggja upp og bitnað harkalega á útflutningstekjum Íslendinga. Þrávirk lífræn efni s.s. PCB, díoxín, brómuð eldhemjandi efni og ýmisskonar pláguefni eru dæmi um óæskileg efni sem mælst hafa í sjávarafurðum. Þessi efni geta haft ýmis neikvæð áhrif á lífverur en algengustu afleiðingarnar eru taldar vera neikvæð áhrif við viðkomu og á ónæmiskerfi þar sem efnin geta líkt eftir hormónum og þar með raskað hormónabúskap lífvera. Sum efnanna geta valdið krabbameini eða örvað vöxt þess.

Það er því mikilvægt að byggja upp sérfræðiþekkingu og aðstöðu til rannsókna og mælinga á þessu sviði hér á landi til þess að geta sýnt á vísindalegan hátt fram á hver staða íslenskra sjávarafurða er með tilliti til öryggis og heilnæmis. Einnig er mikilvægt að geta brugðist við óvæntum uppákomum og haft á takteininum gögn sem sýna fram á öryggi og gæði íslenskra sjávarafurða.

Ásta Margrét Ásmundsdóttir hefur verið ráðin til að sinna þessari uppbyggingu á starfstöð RF á Akureyri. Ásta er B.Sc. í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1988, tók M.Sc. við Bolognaháskóla á Ítalíu árið 1991 og MBA frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002. Ásta hefur starfað við sérhæfðar efnamælingar og hefur víðtæka reynslu af HPLC og GC efnagreining. Hún hefur undanfarin þrjú ár kennt efnafræði og skyldar kennslugreinar við auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

RF býður hana velkomna til starfa.
Fréttir