• Genesis 35 EL

Nýtt tæki á Rf eykur möguleika í rannsóknum

27.6.2005

Rf er nú að taka í notkun nýjan frostþurrkara og fyrirhugað er að nýta tækið við ýmsar rannsóknir, m.a. við að kanna möguleika á frostþurrkun sjávarfangs og við frostþurrkun sýna af ýmsu tagi.

Frostþurrkun er að mörgu leyti spennandi vinnslu- og geymsluaðferð og býður þessi tækni upp á að hægt er að framleiða vöru með einstaka eiginleika, sem ekki er hægt með hefðbundnari aðferðir s.s. frystingu og loftþurrkun.

Megintilgangur með þurrkun matvæla er að lengja geymsluþol þeirra, þar sem örverur sem með tímanum skemma matvæli þurfa á vatni að halda. Frostþurrkun hefur þó þann kost fram yfir hefðbundna þurrkun að við frostþurrkun breytast eiginleikar eins og lögun og áferð lítið sem ekkert þó svo vatnið sé fjarlægt.

Líklega er Nescafe ein þekktasta tegund frostþurrkaðra afurða í dag, en einnig er algengt að frostþurrka viðkvæma ávexti sem innihalda hátt hlutfall vatns, s.s. jarðarber. Þá má til gamans geta að frostþurrkuð matvæli eru gjarnan höfð með í geimferðum.

Á Rf er nú nýhafið forverkefni sem nefnist Frostþurrkun á sjávarfangi, þar sem kannaðir verða möguleikar á að nýta þessa tækni við framleiðslu á hágæðavörum úr sjávarfangi til notkunar í alls konar sérfæði, fæðubótarefni og markfæði.

Nýi frostþurrkarinn er af gerðinni Genesis 35 EL og er frá fyrirtækinu VirTis í Bandaríkjunum.

 
Fréttir