• Ársskýrsla Rf 2004

Ársskýrsla Rf 2004: Einkavæðing sem fer hljótt

1.7.2005

Ársskýrsla Rf fyrir árið 2004 er komin út og verður til að byrja með eingöngu tiltæk á vefsíðu Rf á tölvutæku formi. Eitt af því sem fram kemur í inngangi dr. Sjafnar Sigurgísladóttur,forstjóra Rf, er að töluvert var dregið úr starfsemi Þjónustusviðs Rf á milli áranna 2003-04, en einkafyrirtæki tók að miklu leyti við þeim rekstri. Segir Sjöfn að jafnvel mætti tala hér um einkavæðingu sem ekki hafi farið hátt.

Mikið hefur verið um það rætt á undanförnum árum að störfum hafi fækkað jafnt og þétt úti á landi og að þörf sé á að snúa þessari þróun við, ekki hvað síst þegar hið opinbera á í hlut. Eins og fram kemur í ársskýrslu Rf hafa þær breytingar sem orðið hafa á starfsemi Rf á undanförnum misserum ekki haft í för með sér fækkun starfa.

Starfsemi Þjónustusviðs hefur í raun verið lögð af á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum, en einkafyrirtæki stofnuð á þessum stöðum í kjölfarið til að sinna nauðsynlegum mælingum fyrir iðnaðinn á þessum stöðum. Þessar breytingar hafa þó ekki þýtt fækkun starfa á viðkomandi stöðum, enda fengu flestir þeir sem áður störfuðu við þjónustumælingar á fyrrgreindum stöðum störf hjá þeim einkafyrirtækjum sem stofnuð voru til að sinna þessari þjónustu.

Jafnframt þessum breytingum hefur verið lögð sífellt meiri áhersla á rannsóknir úti á landi, ekki hvað síst í fiskeldi og líftækni og hefur starfsfólki á Rannsóknasviði fjölgað á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem starfsemi Þjónustusviðs var hætt á síðasta ári.

Lesa skýrslu.
Fréttir