• Sveinn Margeirsson

Fyrirlestur í doktorsverkefni um vinnsluspá fyrir þorsk

4.10.2005

Fimmtudaginn 6. okt. n.k. heldur Sveinn Margeirsson fyrirlestur sem er hluti af doktorsverkefni hans sem unnið er við véla- og iðnaðarverkfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands, en það er unnið í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, þar sem hann hefur starfsaðstöðu. Fyrirlesturinn hefst kl. 16:45 í stofu 157 í VR-II við HjarðarhagaVerkfræðideildar Háskóla Íslands, Hjarðarhaga

Verkefni Sveins ber heitið ,,Processing forecast of cod og felur í sér rannsóknar- og þróunarvinnu sem hefur það langtímamarkmið að auka arðsemi þorskvinnslu. Markmiðinu verður náð með því að kortleggja breytur sem hafa áhrif á verðmæti þorsks (t.d. flakanýtingu), sem og breytur sem hafa áhrif á fyrrnefndar breytur (t.d. staðsetningu og tímasetningu veiðanna). Niðurstöðurnar verða notaðar til að styrkja vinnslustjórnun og ákvarðanatöku um val þeirra veiðisvæða sem gefa besta fiskinn til vinnslu á hverjum tíma.

Mælingar hafa verið gerðar í samvinnu við 4 útgerðarfyrirtæki og hefur verkefnið einnig fengið styrk frá Tæknisjóði Rannís og AVS-Rannsóknarsjóði. Útgerðarfyrirtækin eru Samherji hf, Vísir hf, FISK Seafood hf og Guðmundur Runólfsson hf. Mæld hefur verið flakanýting, fjöldi hringorma, los og fjöldi marbletta á fiskinum auk mælinga á skiptingu í afurðaflokka. Fyrrgreindar breytur hafa allar áhrif á verðmæti þorsks og þorskafurða.  Þá hafa verið gerðar mælingar á ástandi fisksins (þyngd, lengd, haushlutfall), auk þess sem aðstæður við veiðar hafa verið skráðar.

Mælingar ná yfir tímabilið 2001-2005 og hafa verið gerðar á þorski veiddum í stórum hluta íslenskra þorskmiða. Þannig hefur verið safnað gögnum sem gefið geta til kynna hvort vinnslueiginleikar og gæði þorsks séu mismunandi eftir t.a.m. veiðislóð og árstíma. Rafrænar afladagbækur, sem nýlega hafa verið þróaðar, hafa verið notaðar til að auðvelda söfnun upplýsinga um þær breytur sem skipt geta máli varðandi veiðarnar, s.s. veiðistað, tíma, toglengd, umhverfisaðstæður o.s.frv.
 
Lokastig doktorsverkefnisins felur í sér vinnu við gerð hugbúnaðar sem auðveldar ákvarðanatöku um hvert skuli haldið til veiða og hvernig það hráefni sem aflast verði best nýtt út frá eiginleikum þorsksins.  Ætlunin er að slíkur hugbúnaður verði tvenns konar. Í fyrsta lagi að um verði að ræða hugbúnað sem kallað getur fram upplýsingar um hvernig staða mála hefur verið á ákveðnum veiðisvæðum sl. ár. Í annan stað er stefnt að gerð bestunarlíkans sem gerir mönnum kleift að ákveða hvar best er að sækja þorsk m.v. gefnar forsendur í vinnslu og þá þekkingu sem skapast hefur í verkefninu. Í bestunarlíkaninu verður gengið út frá niðurstöðum líkangerðar fyrir flakanýtingu, fjölda hringorma, magn loss og annarra þátta sem eðlilegt þykir að hafa með í slíku líkani.
 
Leiðbeinendur Sveins í doktorsnáminu eru Guðmundur R. Jónsson, prófessor við verkfræðideild HÍ, Páll Jensson, prófessor við verkfræðideild HÍ og Sigurjón Arason, dósent við verkfræðideild HÍ.
Fréttir