• Margrét Bragadóttir

Loðnulýsi í salatsósuna

11.10.2005

Að undanförnu hefur Margrét Bragadóttir matvælafræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins unnið að því að kanna mögulega notkun á loðnulýsi til manneldis. Verkefnið var fjármagnað af AVS og Rf. Margrét kynnti niðurstöður sínar nýverið á ráðstefnu WEFTA ( West European Fish Technologists Assosiation) í Antwerpen í Belgíu.

Stærsti hluti afla Íslendinga fer til framleiðsu á lýsi og mjöli til fóðurgerðar, en mikilvægt er að leita allra leiða til að vinna fjölbreyttari afurðir úr uppsjávartegundunum og auka verðmæti þess afla.

Markmið verkefnisins var að reyna finna leiðir til að vinna nýjar afurðir úr loðnulýsi. Unnið var að því að nota loðnulýsi að hluta til í stað jurtaolíu í eggjalaust majónes. Majonesið varð fyrir valinu vegna víðtækra notkunarmöguleika þessarar vöru í salatsósur og ýmsar kaldar sósur. Margt bendir til þess að lýsi í ýrulausn eins og majónes sé stöðugra gagnvart þránun en hreinar olíur eða lýsi. Þá hafa ýmis ýruefni reynst gagnleg til þess að auka stöðugleika og Loðnulýsi í majónesigeymsluþol gagnvart þránun. Niðurstöður þessa verkefnis lofa góðu um að hægt sé að tryggja stöðugleika loðnulýsis gagnvart þránun í eggjalausu majónesi og þar með möguleika á notkun loðnulýsis til manneldis.

Afrakstur verkefnisins er tillaga að afurð úr loðnulýsi í formi majóness sem gæti hentað í bragðmikla salatsósu t.d. með fiskréttum, þar sem fiskibragðið fær notið sín.

Loðnulýsi hefur ýmsa kosti umfram jurtaolíur og þá einkum með tilliti til omega-3 fitusýra svo það er ekki slæmur kostur að höfða til þess þegar majónes, sem oft er tengt óhollustu, er annars vegar.

Mynd: Majónes með loðnulýsi (20%) vinstra megin á mynd. Viðmiðunarsýni (100% sojaolía) hægra megin.


Fréttir