• Sjöfn og Kabil Sibal, vísindaráðherra Indlands
  • Sjöfn og Kabil Sibal á Rf

Vísindaráðherra Indlands heimsækir Rf

20.10.2005

Kabil Sibal, vísindaráðherra Indlands, heimsótti Sjávarútvegshúsið í morgun ásamt fríðu föruneyti og skoðaði m.a. húsakynni Rf í fylgd Sjafnar Sigurgísladóttur, forstjóra Rf. Ráðherrann er hér á landi í boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra.

Eftir því sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag var tilgangur Íslandsheimsóknar indverska ráðherrans m.a. að undirrita samstarfssamninga á milli þjóðanna, annars vegar á sviði menningar og hins vegar á sviði vísinda. Í stuttri heimsókn sinni mun ráðherrann heimsækja ýmsar rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

Í Morgunblaðinu er einnig sagt frá því að ráðherrann hafi lýst yfir áhuga á að læra af reynslu Íslendinga á sviði fiskveiðistjórnunar og að þjóðirnar geti lært mikið hvort af öðru á öðrum sviðum. Er haft eftir Sibal að Ísland sé leiðandi fiskveiðiþjóð, og að Indverjar geti augljóslega lært mikið af Íslendingum um hvernig sé hentugt að stýra sókn í ákveðna fiskistofna.

Þess má geta að Íslendingar stefna að því að opna sendiráð á Indlandi á næstu misserum, sem efalaust mun stórauka samvinnu og samskipti þjóðanna.


Fréttir