• Sæbjúgu

Er kraftur í íslenskum sæbjúgum?

28.10.2005

Þessari spurningu varpaði Margrét Geirsdóttir, matvælafræðingur, fram á Haustfundi Rf nýlega og svaraði henni sjálf, JÁ!. Talið er að í sæbjúgum sé að finna eftirsótt og dýrmæt lífvirk efni, sem hægt er að nota í fæðubótarefni og markfæði. Nýlega kom út skýrsla á Rf sem fjallar um rannsóknir á nýtingu lífvirkra efna úr sæbjúgum.

Í ágripi skýrslunnar sem nefnist Mælingar á lífvirkum efnum í íslensku sjávarfangi - Uppsetning mæliaðferða, segir m.a.: Við Íslandsstrendur finnst fjölbreytt lífríki sem í dag er einungis nýtt að hluta. Sem dæmi um sjávarfang sem talið er að innihaldi þessi lífvirku efni eru sæbjúgu og skötubörð. Nauðsynlegt er að mæla þessi lífvirku efni í íslensku sjávarfangi til að það eigi möguleika á markaði sem fæðubótarefni og markfæði.

Efnin saponin og kondróitín súlfat eru dæmi um efni sem finnast í sjávarfangi og eru talin hafa jákvæð áhrif á heilsu manna, með öðrum orðum þau hafa lífvirkni. Lífvirk efni eru undirstaða þess að hægt sé að framleiða fæðubótarefni og markfæði en þessar vörur eru mjög eftirsóttar í nútíma samfélagi.

Í skýrslunni, sem er eftir þær Margréti Geirsdóttur og Katrínu Ástu Stefánsdóttur, eru kynntar aðferðir til að mæla lífvirku efnin saponin og kondróitín súlfat. Ef þessi lífvirku efni finnast í íslensku sjávarfangi hefur opnast leið til að nýta enn betur lífríkið við Íslandsstrendur og auka verðmæti sjávarfangs.

Þess má geta að verkefnið var styrkt af AVS sjóðnum.

Lesa skýrslu

Erindi Margrétar Geirsdóttur á Haustfundi Rf
Fréttir