• Þorleifur Ágústsson

Þorskurinn gabbaður á Vestfjörðum!

3.11.2005

Fyrir rúmu ári var rannsóknastofa Rf á Ísafirði formlega opnuð og við það tækifæri sagði Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rf m.a. að í starfi rannsóknarstofunnar á Ísafirði yrði einkum lögð áhersla á rannsóknir og þróun á sviði fiskeldis. Fljótlega var svo sagt frá því að Rf væri komið í samstarf við fyrirtæki á Vestfjörðum og erlenda vísindamenn um rannsóknir á þorskeldi í sjókvíum. Að því er fram kemur á vef Bæjarins besta í dag fer nú að draga til tíðinda í þessu samstarfi.

Eitt af því sem hefur valdið vandamálum í fiskkeldi er ótímabær kynþroski eldisfisksins, en niðurstöður rannsókna sýna að eldisþorskur verður kynþroska við um tveggja ára aldur, löngu áður en sláturstærð er náð. Hjá þorski, líkt og öðrum tegundum fiska, veldur kynþroski því að mjög hægir á líkamsvexti. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar til að stemma stigu við þessu en í umræddu verkefni sem Rf o.fl. standa að á að nota sérstök ljós til að gabba fiskinn og tefja fyrir því að hann verði kynþroska.

Eftir því sem BB segir í frétt sinni mun bráðlega verða settur ljósabúnaður í rannsóknasjókvíar í Álftafirði, en þar hefur verið unnið að því að koma á fót sjókvía-rannsóknamiðstöð á svæðinu í samstarfi Rf, Hraðfrystihússins – Gunnvarar og fleiri aðila. Ljósin koma frá Intravision Group í Noregi og eru þau framlag fyrirtækisins til verkefnisins.

Segja má að tilgangurinn með ljósunum sé að sannfæra eldisþorsk um að það sé sumar allan ársins hring. Með því er vonast til að hægt verði að tefja kynþroska fisksins sem verður þá stærri, en ótímabær kynþroski hefur áhrif á vöxt og gæði eldisfisks. Byggðastofnun, iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti styrkja verkefnið. Þá veitti Orkubú Vestfjarða, Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur styrk sem fólst í raflögnum í tengslum við ljósabúnað kvíanna. Á næstunni verður síðan leitað til innlendra sjóða svo hægt verði að hefja rannsóknir, m.a. Rannís og AVS (aukið verðmæti sjávarfangs).

Verkefnisstjóri fyrir hönd Rf er Dr. Þorleifur Ágústsson (s: 8918354)

Frétt í Bæjarins besta

Frétt á Rf-vefnum 8.8. 2005

Skoða kynningu á Intravision Group
Fréttir