• Fiskur rannsakaður á Rf

Eldisþorskur heldur ferskleikaeinkennum lengur en villtur þorskur

14.11.2005

Nýlega kom út á Rf verkefnisskýrslan Framtíðarþorskur: geymsluþol, áferð, vöðvabygging og vinnsla eldisþorsks og er hún framhald skýrslunnar Framtíðarþorskur: gæðamat á eldisþorski, sem kom út haustið 2004. Í nýju skýrslunni birtast m.a. niðurstöður rannsókna á geymslueiginleikum og geymsluþoli flaka af aleldisþorski í samanburði við flök af villtum þorski. Á meðal þess sem í ljós kom var að lítill munur var á endanlegu geymsluþoli eldisþorsks og villts þorsks en flök af eldisþorski héldu þó ferskleikabragðinu marktækt lengur inn í geymslutímann.

Í skýrslunni Framtíðarþorskur:gæðamat á eldisþorski (Rf skýrsla 10 – 04), sem út kom í fyrra, var m.a. sagt frá því að að holdgæði áframeldisþorsks jókst með lengd eldistíma og að gæðamat flaka var mun betra hjá áframeldisfiski sem var alinn í sjókvíum í 19 mánuði heldur en þeirra sem aldir voru í 6-7 mánuði, eins og algengast er. Þá kom í ljós að eldisþorskur reyndist marktækt lægri í vatnsheldni en villtur þorskur, en vatnsheldnin jókst talsvert við það að minnka fóðrun í sjö vikur fyrir slátrun. Los í holdi tengist sýrustigi og magni fóðurs og þegar dregið er úr fóðrun hækkar sýrustigið og það dregur úr losi. Myndgreining sem gerð var á vöðva eldisþorsks sýndi að mikill millifrumuvökvi er til staðar, sem hefur ekki sést  í villtum þorski. Í skýrslunni var komist að þeirri niðurstöðu að tala mætti um að eldiþorskur væri að ýmsu leyti  frábrugðinn villtum þorski.  Lesa skýrslu 10-04.

Í skýrslunni sem nýlega kom út er sagt frá framhaldi rannsókna í þessu verkefni, sem m.a. beindust að því að bera saman geymslueiginleika og –þol eldisþorsks og villts þorsks.  Þá var rannsóknum á smásærri byggingu þorskvöðva  með myndgreiningu , framhaldið og leitast var við að finna skýringu á því hvers vegna millifrumuvökvi safnast upp í eldisþorski. 

 Hingað til hafa rannsóknir sýnt að eldisþorskur, sem verkaður er í saltfisk, hefur ekki skilað ákjósanlegum gæðum.   Í skýrslunni er greint frá tilraunum þar sem leitast var við að bæta gæðaflokkun saltfiskflaka úr eldisþorski með því að nota fosfat í verkunarpækilinn.

Lesa skýslu 26-05
Fréttir