• Eldisþorskur

Rf tekur þátt í verkefni um velferð eldisfiska

23.11.2005

Rf tekur þátt í fjölþjóðlegu verkefni sem nefnist Welfare of Fish in European Aquaculture og fjallar um velferð fiska í eldi. Verkefnið er s.k. COST-verkefni, sem er stytting úr European Cooperation in the field of Scientific and Technical Research og er almennur rammi um Evrópusamstarf á sviði vísinda- og tæknirannsókna.

Verkefnið nefnist COST action 867 “Welfare of Fish in European Aquaculture og er markmið þess að koma á samstarfi þeirra sem tengjast velferð fiska á einhvern hátt. Þátttakendur eru fiskeldismenn, fulltrúar stjórnsýslu og fulltrúar rannsóknastofnana. Gert er ráð fyrir því að í verkefninu verði unnið að því að móta leiðbeiningar og starfsreglur um velferð eldisfiska og að skilgreina mælikvarða á velferð eldisfisks. Þó svo að um Evrópuverkefni sé að ræða hafa vísindamenn frá öðrum heimsálfum lýst yfir áhuga á að taka þátt í því.

Umræða um velferð húsdýra hefur aukist víða á undanförnum árum og inn í þá umræðu blandast m.a. hertar kröfur í reglugerðum um aðbúnað húsdýra og reglur um lífrænt eldi. Þá hafa menn í auknum mæli rætt um nauðsyn mannúðlegra slátrunaraðferða eldisdýra, þ.á.m. í fiskeldi. 

Það er mikilvægt að fjallað sé af skynsemi um þessi og önnur álíka mál og nauðsynlegt að umræðan sé ekki einhliða heldur þurfa fiskeldismenn, sjómenn, vísindamenn o.fl. einnig að koma að henni.   Kannanir í Evrópu sýna að neytendur láta sig varða meðferð á dýrum og velferð þeirra og í nýlegri evrópskri skoðanakönnun kvaðst meirihluti neytenda reiðubúinn að greiða hærra verð fyrir afurðir af dýrum sem þeir tryðu að hefðu verið meðhöndluð á mannúðlegan hátt. 

Fulltrúi Rf í þessu verkefni er Dr. Þorleifur Ágústsson, fiskalífeðlisfræðingur (tolli@rf.is) ,en hann hefur mikla reynslu rannsóknum sem tengjast lífeðlisfræði fiska og fiskeldi. Þorleifur stýrir m.a. fiskeldisrannsóknum fyrir hönd Rf á Vestfjörðum.  Annar þátttakandi frá Íslandi er Háskólinn á Hólum.

 


Fréttir