• Fuglar á spegilsléttum sjó

Árlegt vöktunarverkefni: Gott ástand lífríkis í hafinu við Ísland

28.6.2006

Niðurstöður nýrrar skýrslu úr árlegu vöktunarverkefni, þar sem fylgst er með mengun og ástandi lífríkis sjávar umhverfis Ísland, sýna litlar breytingar frá fyrri árum, t.d. eru lítil merki um að styrkur þungmálma og þrávirkra lífrænna efna færist í vöxt í hafinu umhverfis landið. Þetta má m.a. lesa má úr skýrslunni Monitoring of the Marine Biospheare around Iceland in 2004-2005 sem kom út á Rf í dag.

Í skýrslunni eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis sem Umhverfisstofnun leiðir og styrkt er af Umhverfisráðuneytinu. Markmið verkefnisins er að uppfylla skuldbindingar Íslands varðandi Oslóar- og Parísarsamninginn (OSPAR), auk AMAP (Artic Monitoring Assessment Program). Í vöktuninni eru mæld ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski og kræklingi, en þessum lífverum var safnað umhverfis landið á árunum 2004 og 2005. Niðurstöður mælinganna sem lýst er í þessum skýrslum eru framhald vöktunarmælinga sem hófust árið 1990.

Sem fyrr mælist styrkur þungmálma í þorski og kræklingi hér við land oftast við eða undir viðmiðunargildum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), með undantekningum þó. Þannig mælist kadmín mælist t.d. sem fyrr fremur hátt í lífríki sjávar hér við land, sem virðist eiga sér náttúrulegar jarðfræðilegar skýringar, því ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af mannavöldum.

Samanburður við önnur hafsvæði leiðir í ljós að styrkur þrávirkra lífrænna efna í lífríki sjávar við Ísland er með því lægsta sem mælist á nálægum hafsvæðum.

Lesa skýrslu

Nánari upplýsingar veitir Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur á Rf.

Netfang: eva@rf.is sími: 530 8600.
Fréttir