Matvælafyrirtæki sökuð um óeðlileg afskipti.

9.1.2003

Í nýrri skýrslu eru matvælarisar á borð við Heinz,General Foods o.fl. sökuð um að reyna að hafa áhrif á matvælareglugerðir sem stofnanir á borð við Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og Matvælastofnun S.Þ. (FAO) setja.

Frá þessu er greint á heimasíðu The Guardian. Þar segir að matvælarisarnir reyni m.a. að hafa áhrif á það magn fitu, salts, sykurs, aukaefna og skordýraeiturs sem óhætt telst að heimila í matvælum án þess að heilsu almennings teljist ógnað.

Matvælafyrirtækin gera þetta m.a. með því að koma vísindamönnum, sem þeim eru vilhollir, í nefndir á vegum áðurnefndra stofnanna og styrkja þá sem predika andstöðu við boð og bönn af þessu tagi, t.d. í greinum í tímaritum og blöðum.

Í skýrslunni er bent á að þetta séu samskonar aðferðir og tóbaksfyrirtæki beittu á sínum tíma er þau reyndu að sporna við vaxandi áhyggjum af skaðsemi tóbaks.

Í skýrslunni segir að WHO og FAO þurfi nauðsynlega á innleggi frá matvælaiðnaðinum að halda til að geta sinnt hlutverkum sínum, sem er m.a. að stuðla að bættu heilsufari almennings. Nauðsynlegt sé hins vegar að matvælaiðnaðurinn geri það fyrir opnum tjöldum.


Fréttir