• Sjofn_Sigurgisladottir

Fréttatilkynning frá Matís ohf.

2.10.2006

Sjöfn Sigurgísladóttir hefur verið ráðin forstjóri Matís ohf. en það er hið nýja fyrirtæki sem verður til við sameiningu Rf, RUST og Matvælarannsókna á Keldnaholti. Nýja fyrirtækið sendi í morgun frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir hefur verið ráðin forstjóri hins nýstofnaða fyrirtækis Matís ohf. frá 1. janúar 2007, en þá hefst eiginleg starfsemi félagsins. Sjöfn hefur verið forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins síðan árið 2002, en þar áður starfaði hún á sviði matvælaöryggis hjá Hollustuvernd (nú Umhverfisstofnun) og við rannsóknar- og þróunarmál hjá Iðntæknistofnun í samstarfi við matvælaiðnaðinn. Sjöfn hefur einnig sinnt nefndar- og trúnaðarstörfum á þessum vettvangi undanfarin ár, bæði innanlands og erlendis. Hún er 43 ára.

Matís ohf. er opinbert hlutafélag sem stofnað var með lögum nr. 68/2006 þann 3. júní sl. í þeim tilgangi að sameina matvælarannsóknir á vegum hins opinbera í eitt félag. Starfsemi þriggja stofnana/eininga verður sameinuð í eitt félag, Matís ohf. frá 1. janúar 2007, þ.e.  frá  Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, RUST (rannsóknastofnun Umhverfisstofnunar) og Matvælarannsóknir á Keldnaholti (samstarf Landbúnaðarháskólans og Iðntæknistofnunar.   

Matís ohf. verður með starfsemi sína á nokkrum stöðum á landinu, en með aðalstöðvar í Reykjavík. Starfsvið Matís ohf. er fyrst og fremst að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

Öllum starfsmönnum eininganna þriggja er boðið starf hjá Matís ohf.

Nánari upplýsingar veitir Friðrik Friðriksson stjórnarformaður í síma 896 7350.
Fréttir