• Eldisþorskur í sjókvíum

Að borða eldisfisk er samviskuspurning

13.4.2007

Umræða um velferð dýra og umhverfisvæna matvælaframleiðslu hefur færst í aukana á undanförnum árum. Umræðan tekur á sig ýmsar myndir og blandast þar inn í ólíkustu baráttumál, eins og nýlegar fréttir frá Bretlandi um þrýsting hvalveiðiandstæðinga á verslanakeðjur um að selja ekki fisk frá ákveðnum íslenskum fyrirtækjum vitnar t.d. um.

Þessi umræða er reyndar dálítið afstæð þar sem stór hluti mannkyns hefur ekki efni á því að velta vöngum yfir því hvort þau dýr sem lögð eru til munns hafi þjáðst eða ekki fyrir slátrun. Slíkar samviskuspurningar eru því fyrst og fremst munaður ríkra þjóða. En þessar vangaveltur eru staðreynd engu að síður og munu trúlega hafa sífellt meiri áhrif á neysluhegðun á mikilvægum mörkuðum Íslendinga á komandi árum.

Í fiskeldi hefur verið lögð áhersla á að koma á ýmsum reglugerðum varðandi eldið og eitt af þeim sjónarmiðum sem hafa verið í umræðunni er einmitt dýravelferð í eldisframleiðslu. Það er því mikilvægt að kanna hvort mismunandi meðferð á fiski í tengslum við dýravelferð hafi í raun áhrif á gæði afurðarinnar. Ef sú er raunin gæti það haft áhrif á neytendur.

Haustið 2006 fór fram viðamikil rannsóknin sem var hluti af þátttöku Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (nú Matís, ohf) í SEAFOODplus verkefninu sem styrkt er af ESB. Markmiðið var að kanna hvort eldisþorskur, sem framleiddur var með sérstöku tilliti til dýravelferðar annarsvegar, og hinsvegar framleiddur á hefðbundinn hátt, hefðu mismunandi gæðaeinkenni. Einnig var gerð neytendakönnun til að kanna hvort neytendur hefðu mismunandi smekk fyrir þessum afurðum og hvort mismunandi upplýsingar um eldið hefðu áhrif á það hvernig neytendum hugnaðist afurðirnar.

Í nýjasta tbl. Rannísblaðsins fjölluðu tveir af aðstandendum rannsóknarinnar, þær Emilía Martinsdóttir og Kolbrún Sveinsdóttir um rannsóknina. Í stuttu máli má segja að niðurstöðurnar bendi til að ef neytendur vissu ekki hvort eldisfiskurinn hafði verið alinn með sérstöku tilliti til velferðar fisksins eða ekki, þá hafi þeim frekar geðjast eldisþorskur sem alinn var á hefðbundinn hátt.

Það sýndi sig hins vegar að þegar neytendur fengu upplýsingar um eldisaðferðirnar þá kusu þeir heldur þann fisk sem alinn var m.t.t. velferðar fisksins og fannst eðlilegt að fiskur sem alinn væri við slíkar aðstæður væri dýrari en hefðbundinn eldisfiskur.

Þessar niðurstöður benda til að merkingar matvæla og hvaða upplýsingar eru gefnar á umbúðum skipti máli fyrir neytendur. Þær benda einnig til þess að fólk noti ekki eingöngu hefðbundin skynfæri er það metur fæðuna, heldur borðar einnig “með hjartanu.”

Nýlega var einnig umfjöllun um þetta efni á vef SEAFOODplus

Grein í Rannísblaðinu
Fréttir