Bakteríu eytt með háþrýstimeðhöndlun

11.9.2007

laxMatís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur tekist að þróa aðferð sem eyðir á skömmum tíma bakteríu í sýktum laxi. Aðferðin, sem felst í háþrýstimeðhöndlun, tryggir öruggari neyslu á laxi og lengra geymsluþol án þess að hafa neikvæð áhrif á lit og áferð. Um er að ræða nýja nálgun á háþrýstingsmeðferð, sem var þróuð í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Með nýrri tækni er hægt að ná tilskyldum árangri á innan við 10 sekúndum í stað 15 mínútna áður.

Með nýju aðferðinni er hægt að eyða bakteríunni Listeríu í reyktum laxi. Listería er afar sjaldgæf í laxi en getur valdið sýkingum hjá neytendum sem borða lax sem inniheldur bakteríuna.

Niðurstöður rannsóknar Matís leiða í ljós að háþrýstingur þurfi að vera 700-900 MPa til að eyða bakteríunni. Háþrýstingur hefur lítilsháttar áhrif á myndbyggingu, lit og áferð afurðar. Með aðferðinni er hægt að tryggja neytendum reyktan lax sem hefur lengra geymsluþol og er laus við Listeríu og jafnvel snauður af öðrum bakteríum. Þekkingarlegur ávinningur mun leiða til frekari framþróunar og nýrra nýtingarmöguleika á þessari nýju tækni.

Hefðbundin kaldreyking á laxi nægir ekki til að drepa Listeríu og getur hún því verið vandamál hjá bæði framleiðendum og neytendum. Með auknu hreinlæti og bættri gæðastýringu hefur þó tekist að ná góðum árangri, en til að tryggja að reyktur lax innihaldi ekki bakteríuna er nauðsynlegt að þróa nýja tækni eins og háþrýsting. Þátttakendur í verkefninu voru frá Matís (áður Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Matvælarannsóknir Keldnaholti).

Skýrslan í heild sinni.
Fréttir