• Úrval fiskrétta.

Aukin fræðsla eykur ánægju fiskneytenda

2.1.2008

Fólk nýtur fiskmáltíðar betur og getur hugsað sér að kaupa fisk oftar ef það fær kennslu í gæðamati á fiski, að því er fram kemur í könnun sem Matís gerði meðal fiskneytenda.

Haldið var námskeið um hvernig meta megi ferskleika fisks fyrir neytendur. Námskeiðið var tvískipt. Í fyrri hlutanum fengu neytendur stuttan fyrirlestur um gæðaeinkenni þorsks og hvernig hann breytist við geymslu. Þeir fengu þjálfun í að meta ferskleika hrárra og soðinna þorskflaka af mismunandi ferskleika samkvæmt einkunnaskölum.

Í seinni hluta námskeiðsins voru sömu neytendurnir beðnir um að gefa hráum og soðnum flökum einkunn samkvæmt eigin smekk og einnig meta ferskleika. Ennfremur voru þeir beðnir um ábendingar varðandi leiðbeiningarnar, einkunnaskalana og hvort efni námskeiðsins væri gagnlegt. Niðurstöður námskeiðsins bentu til þess að leiðbeiningar af þessu tagi eigi fyllilega erindi við neytendur.

Mat þátttakenda námskeiðsins á hráum og soðnum fiskflökum samkvæmt einkunnaskölum sýndi að þeir voru fljótir að tileinka sér aðferðirnar og þær lýsingar sem gefnar voru á misfersku hráefni. Að námskeiði loknu voru viðkomandi þátttakendur öruggari í gæðamati á fiski, töldu að þeir myndu njóta fiskmáltíða betur en áður og komi til með að kaupa fisk oftar en áður.

Niðurstöður verkefnisins, sem ber heitið Fróðir fiskneytendur, gefur vísbendingar um að fólk hafi gagn af leiðbeiningum um meðhöndlun og gæði. Skynsamlegt væri að fylgja verkefninu eftir með stærri hópi neytenda, bæði til að fá áreiðanlegra mat á gagnsemi leiðbeininga af þessum toga, sem og að fylgjast með áhrifum upplýsinga af þessu tagi til lengri tíma.

Hægt er að lesa um niðurstöður könnunarinnar hér.


Fréttir