Matís rannsakar efnaform arsens í fiskimjöli og fóðurlýsi

18.10.2008

Arsen er bæði vel þekkt eiturefni og krabbameinsvaldandi efni og er því efst á lista “Agency for Toxic Substances and Disease Registry” í Bandaríkjunum yfir hættuleg efni. Formgreining arsens í matvælum og öðrum lífrænum sýnum er mikilvæg vegna þess að upptaka (bioavailability) og eiturvirkni arsens er mjög háð því á hvaða efnaformi það er.

Sum efnafrom arsens eins og t.d. metýlerað þrígilt arsen er mjög eitrað á meðan arsenobetaníð er hættulaust. Engu að síður taka núverandi reglugerðir um innihaldsmörk arsens í matvælum og fóðri einungis tillit til heildar arsens í fæðu/fóðurþáttum en miðast ekki við eitrað efnaform arsens. Rannsóknir á efnaformum arsens og formbreytingum þessara efna eru mikilvægar til þess að skilja hve mikil hætta okkur stafar af arsenic í fæðu.

Í lífríkinu er mikið til af efninu arseni í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens miðað við t.d. landbúnaðarafurðir. Fram til þessa hafa verið til takmarkaðar upplýsingar um mismunandi efnaform arsens í t.d. fiskimjöli og fóðurlýsi. Matís hefur tekið þátt í að rannsaka mismunandi efnaform arsens í fóðurlýsi sem unnið var úr þorski og loðnu og hafa niðurstöður þessara rannsókna nýlega verið birtar í tveimur vísindagreinum í ritrýndum tímaritum.

Rannsóknir á efnaformum arsens eru mjög mikilvægar til þess að afla gagna um hvaða efnaform arsens og í hvaða magni þau eru til staðar í t.d. fiskimjöli og fóðurlýsi. Síðan er er hægt að nýta þessi gögn sem grundvöll fyrir endurskoðun á lögum og reglugerðum um mörk arsens í viðkomandi sjávarfangi. Haldið verður áfram að vinna að rannsóknum á þessu rannsóknarsviði hjá Matís og hlaut Matís m.a. styrk frá AVS árið 2008 til að greina eitruð og hættulaus efnaforma arsens í fiskimjöli.

Nánari upplýsingar um niðurstöður ofangreindra rannsókna Matís má finna í Chemical Communication, 39, 2008 og Angewandte Chemie, 47, 2008.


Fréttir