• Ensímin vinna verkið

Ensím vinnur verkið

16.11.2008

Notkun ensíms sparar mikinn tíma við hreinsun á lifur fyrir niðursuðu, en ensímið leysir upp himnuna á yfirborði lifrarinnar og við það losna ormar sem búið hafa um sig undir henni. Fram til þessa hefur þurft að handvinna þessa snyrtingu, sem er mjög tímafrek.

Matís hefur í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-w ehf. og Martak ehf. unnið að hönnun og þróun á búnaði í vinnsluferli fyrir ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu, ásamt búnaði til pæklunar á lifur. Markmið verkefnisins, sem stutt er af AVS sjóðnum, er að auka arðsemi við framleiðslu á niðursoðinni lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða, ásamt því að auka sjálfvirkni framleiðslunnar.

Ensímmeðhöndlun á lifrinni gerir það að verkum að bæði tími og mannafli sparast við hreinsun á himnu og ormum af yfirborði lifrar. Aldrei verður þó komið komist hjá einhverri snyrtingu á lifrinni þar sem fjarlægja þarf æð til lifrar og galllitaða lifur, áður en ensímmeðhöndlun fer fram.

Lokið er við hönnun á búnaði og hafa verið gerðar tilraunir á vinnsluferlinu. Í grófum dráttum er vinnsluferillinn uppbyggður þannig að lifrin fer á snyrtiborð til forsnyrtingar. Lifrin er síðan mötuð inn á færiband og þar ofan í kar með ensímlausn og er lausninni hringrásað frá hliðarkari. Lifrin fer síðan með færibandi í saltpækil og þaðan í skammtara sem skammtar lifrinni í dósir. Síðan tekur við hefðbundinn niðursuða.

Niðurstöður tilrauna hafa sýnt að hægt er að auka afköstin í umtalsvert auk þess sem nýting jókst um 20%. Árið 2007 voru framleidd um 900 tonn af niðursoðinni lifur á Íslandi eða 9 milljónir dósa og verðmæti þessa útflutnings var tæpar 320 m.kr. Þessi nýja vinnsluaðferð með ensímum getur aukið þessi verðmæti um 20-30%.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Ásbirni Jónssyni verkefnisstjóra hjá Matís.
Fréttir