• matis

Meistaravörn í Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri - Matís styrkir verkefnið

12.12.2008

Þriðjudaginn 16. desember heldur Guðbjörg Stella Árnadóttir meistaravörn sína á auðlindasviði. Vörnin fer fram kl. 13:00 og verður í stofu K201 á Sólborg.

Verkefni Stellu ber heitið „The effects of cold cathode lights on growth of juvenile Atlantic cod (Gadus morhua L.): use of IGF-I as an indicator of growth”.

Verkefnið var hluti af stærra verkefni, „Þróun iðnaðarvædds þorskeldis: Stjórn vaxtar og kynþroska með háþróuðum ljósabúnaði“ sem styrkt var af AVS sjóðnum og var samstarfsverkefni Matís ohf., Hafrannsóknarstofnunar, Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., Háskólans í Gautaborg, Háskólans að Hólum, Háskólans á Akureyri, Matís-Prokaría og Náttúrustofu Vestfjarða.

Meistaraverkefni Guðbjargar Stellu var styrkt af Matís ohf., AVS-sjóðnum, Landsbankanum og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.

Ljóslota er einn af þeim umhverfisþáttum sem hefur hvað mest áhrif á vöxt og kynþroska þorsks líkt og hjá öðrum fiskitegundum. Nýlegar rannsóknir benda til að unnt sé að auka vaxtarhraða þorsks með því að nota ljósastýringu til þess að lengja dag yfir haust og vetur. Í þessari rannsókn voru þorskseiði alin í kerjum með nýrri ljósatækni (cold-cathod lights; CCLs) frá því að þau voru um 10 grömm að þyngd. Með lýsingunni voru seiðunum skapaðar sérstakar umhverfisaðstæður mjög snemma á lífsferlinum sem hugsanlega geta aukið næmni fyrir ákveðnum bylgjulengdum ljósa þegar seiðin eru síðar á lífsferlinum flutt í ljósastýrðar sjókvíar. Rannsökuð voru áhrif ljósanna á vöxt seiðanna og styrk IGF-I (insúlín-líkur vaxtarþáttur-I) í blóði.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að meðhöndlun með CCL ljósum hafi ekki áhrif á vöxt eða lifun þorsksseiða fyrsta árið í eldi. Niðurstöður sýna ennfremur að mögulegt er að mæla magn IGF-I í blóði, en ekki reyndist vera samband á milli vaxtarhraða og styrks IGF-I í blóði þorsks á þessu þroskaskeiði. Niðurstöður benda jafnframt til þess að meðhöndlun með CCL ljósum á fyrstu stigum eldisins hafi jákvæð áhrif með tilliti til beinagrindargalla sem hafa verið vandamál í seiðaeldi þorsks.

Leiðbeinendur og umsjónaraðilar verkefnisins voru Rannveig Björnsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri/deildarstjóri Matís ohf., Dr. Þorleifur Ágústsson verkefnastjóri Matís ohf., Prófessor Björn Þrándur Björnsson við fiskalífeðlisfræðideild Háskólans í Gautaborg og Dr. Helgi Thorarensen, deildarstjóri fiskeldisdeildar Háskólans að Hólum.

Andmælandi er Dr. Logi Jónsson, dósent við Háskóla Íslands.
Fréttir