• Svidasulta_ofl

Allt að 80% vatn í sviðasultu - ÍSGEM kemur að góðum notum

12.12.2008

Hlutfall vatns í sviðasultu sem hér til sölu er allt að 80% eftir því sem fram kemur í niðurstöðum mælinga Matís fyrir Neytendasamtökin. Súr sviðasulta er vatnsríkari en ný og reyndist vatnsinnihaldið ívið meira en áskilið er í ÍSGEM, gagnagrunni um efnainnihald matvæla(nánar um ÍSGEM).

Neytendasamtökin fengu kvörtun um að sviðasulta innihéldi of lítið af kjöti en þess meira af vatni og matarlími. Því ákváðu Neytendasamtökin að láta mæla magn vatns í fjórum tegundum sviðasulta og annaðist Matís mælingarnar.

Niðurstaðan var eftirfarandi:

SS sviðasulta
75,7 g/vatn í 100g

Goða sviðasulta 74,9 g/vatn í 100g

Sviðasulta SAH afurðir Blönduósi 76,1 g/vatn í 100g

Nóatúns sviðasulta súr 80,3 g/vatn í 100g

Í niðurstöðum Matís segir að súra sviðasultan sé greinilega vatnsríkari en nýja sviðasultan, enda hafi mátt sjá meira hlaup milli sviðabita í súrsuðu sultunum en hinum. Þá segir að vatnsupptaka í súrsunarferlinu geti einnig skýrt mun á vatnsinnihaldi að hluta. Gildi fyrir sviðasultu eru birt í ÍSGEM gagnagrunninum (íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla.

Gildi fyrir nýja sviðasultu eru
74,8g vatn / 100g og fyrir súra sviðasultu 77,8g vatn / 100g.

„Samkvæmt reglugerð um kjöt og kjötvörur eru kjötsultur soðnar vörur úr kjöti og öðrum hráefnum og/eða aukefnum og mynda hlaup eftir hitun. Notað er matarlím/gelatín í þessar vörur eins og fram kemur í innihaldslýsingum. Ediksýra kemur fram í innihaldslýsingu fyrir nýja sviðasultu frá SAH afurðum en ætla má að það passi ekki fyrir þessa afurð,“ segir í niðurstöðum Matís Innihaldslýsingu vantaði á umbúðir súru sviðasultunnar frá Nóatúni. „Slíkt er að sjálfsögðu ekki í samræmi við gildandi reglur, enda ber að geta innihalds í samsettum vörum eins og sviðasulta er,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Fréttin birtist fyrst á heimasíðu Neytendasamtakan, www.ns.is/


Fréttir