Rf heldur námskeið fyrir starfsfólk fiskmarkaða.

3.2.2003

Um þessar mundir stendur Rf fyrir námskeiðum fyrir starfsmenn fiskmarkaða, þar sem kennt er hvernig meta á fisk samkvæmt gæðastuðulsaðferðinni (QIM). Alls verða sex námskeið haldin á þremur stöðum á landinu

Sífellt aukast kröfur um rekjanleika fisks og fiskafurða og því er nauðsynlegt að samræma aðferðir við að meta gæði fisksins. Gæðastuðulsaðferðin (Quality Index Method, QIM) er aðferð til að meta ferskleika fisks og hefur Rf m.a. átt þátt í að þróa þessa aðferð, sem þegar er farið að nota á fiskmörkuðum víða í Evrópu.

Um 60 starfsmenn fiskmarkaða munu sækja námskeiðin sem Rf stendur fyrir. Þegar er búið að halda þrjú námskeið í Reykjavík, tvö verða haldin fljótlega á Snæfellsnesi og að lokum eitt á Ísafirði.

Námskeiðin eru styrkt af Sjómennt, Landsmennt og Starfsafli, sem eru starfsmenntasjóðir hinna ýmsu verkalýðsfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Rf hlaut einnig styrk frá sömu aðilum til að gera námsefni í tengslum við þessi námskeið.


Fréttir