Fimmta starfsári Sjávarútvegsskólans að ljúka

7.2.2003

Í dag verður útskrifaður 5. árgangur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skólinn er starfræktur samkvæmt sérstöku samkomulagi við Háskóla S.Þ. og er fjármögnun hans að mestu leyti hluti af framlögum Íslands til þróunaraðstoðar.

Föstudaginn 7. febrúar verður útskrifaður 5. árgangur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skólinn er starfræktur samkvæmt sérstöku samkomulagi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna og er fjármögnun hans að mestu leyti hluti af framlögum Íslands til þróunaraðstoðar. Skólinn er hluti af reglulegri starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar, og er rekinn í nánu samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, auk þess sem fleiri stofnanir og fjöldi fyrirtækja leggja þar hönd á plóg.

Skólinn veitir sex mánaða nám og starfsþjálfun fyrir fagfólk og sérfræðinga frá þróunarlöndunum og ríkjum fyrrum lýðvelda Sovétríkjanna. Eitt helsta markmið skólans er að taka þátt í uppbyggingu á fagþekkingu á stofnunum og í fyrirtækjum sem tengjast sjávarútvegi í þessum löndum. Því eru nemendur valdir frá löndum þar sem veiðar eru mikilvægar og þar sem þróunarmöguleikar eru umtalsverðir. Oft veljast þá lönd þar sem Íslendingar hafa áður komið að sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti, t.d. í gegnum starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, eða lönd sem sækjast eftir samstarfi við Íslendinga á þessu sviði. Þannig er vonast til að árangur af starfinu verði meiri.

Að þessu sinni útskrifast 19 nemendur, sem er stærsti hópurinn til þessa, en þá hafa frá upphafi starfseminnar alls 62 nemendur útskrifast. Þar af hefur helmingurinn komið frá löndum í Afríku sunnan Sahara, 21 frá Asíu, átta frá Mið- og Suður Ameríku og tveir frá Evrópu. Leitast er við að halda samstarfi við hvert land, eða svæði innan hvers lands, um eitthvert árabil þannig að þar verði til hópur fólks á ýmsum sviðum sem hafi fengið þjálfun við Sjávarútvegsskólann. Nú þegar hafa verið teknir inn nemendur frá 19 löndum og á þessu ári bættust fjögur ný lönd í hópinn, Íran, Malasía, Eistland og Rússland. Á næstu árum er gert ráð fyrir að eitt til tvö ný lönd eða svæði bætist í hópinn ár hvert.

Námið í skólanum skiptist í almennt nám sem allir taka, í því er leitast við að gefa sem besta heildarsýn yfir sjávarútveg og þau svið sem þar koma saman, allt frá miðum til maga. Eftir um 5-6 vikur tekur við sérnám og raðast nemendur þá á svið í samræmi við fyrra nám sitt og starfsreynslu, en meðal inntökuskilyrða er háskólamenntun og nokkur starfsreynsla. Sérnámið hefst með 4-5 vikna námskeiði, en síðan tekur við verkefnavinna og starfsþjálfun. Þar er lögð mikil áhersla á að námið sé hagnýtt og er það sniðið að þörfum hvers og eins. Oft koma nemendur með gögn með sér eða vinna verkefni með öðrum hætti sem tengjast áherslum í störfum þeirra heima fyrir.

Boðið er upp á sérnám á alls sex sviðum, oftast þremur til fjórum á hverju ári. Að þessu sinni sérhæfðu sjö nemendur sig í fiskifræði. Viðfangsefni þeirra voru meðal annars stofnstærð rækju á yfirráðasvæði Írana í Persaflóa og útbreiðsla fisktegunda í neðri hluta Gambíu árinnar í V-Afríku en einnig verkefni nálægari Íslendingum eins og áhrif langtímasvæðalokunar á karfastofninn og mat á brottkasti í þorskveiðum Rússa í Barentshafi.

Sex nemendur sérhæfðu sig í námi um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og markaðsmál sem kennt var við Háskólann á Akureyri en þessir nemendur unnu einnig verkefni sín á Akureyri. Þar kenndi einnig ýmissa grasa. Í verkefnum sínum fjölluðu nemendur m.a. um útgerð á Grænhöfðaeyjum, markaðssetningu rækju frá Víetnam og markaðsmál vatnakarfa frá Kúbu í Bandaríkjunum. Aðrir unnu verkefni sem eru nær okkur, svo sem áhrif og hlutverk fiskmarkaða í verðmyndun afla og í eftirliti. Þá fjallaði eitt verkefnið um uppbyggingu og rekstur hafnar í Mósambik með hiðsjón af starfsemi Akureyrarhafnar.

Loks sérhæfðu sex nemendur sig á sviði gæðastjórnunar í meðhöndlun og vinnslu afla. Hér voru viðfangsefnin ekki síður fjölbreytt. Rekjanleiki fiskafurða var kannaður og gerð tillaga um með hvaða hætti mætti aðlaga slíkt kerfi aðstæðum í Kína, samdar voru leiðbeiningar fyrir fiskverkendur í Kenýa með hliðsjón af rannsókn sem gerð var í fiskvinnslu á Íslandi og þá var geymsluþol síldar við ólíkar aðstæður og mismunandi leiðir til að meta það einnig rannsóknarefni nemenda.

Í náminu er mikið lagt upp úr því að nemendur kynnist starfsemi og starfsfólki fyrirtækja, stofnanna og annarra aðila í tengslum við fræðilega umfjöllun og hagnýt verkefni. Afgerandi fyrir staðsetningu Sjávarútvegsskólans hér á landi var einmitt það orðspor sem fer af íslenskum sjávarútvegi á alþjóðavettvangi. Það er ljóst að skólinn gæti ekki náð markmiðum sínum án náins samstarfs við fjölmarga aðila í sjávarútveginum.

Stjórn og starfsmenn Sjávarútvegsskólans vilja á þessum tímamótum koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem átt hafa samstarf við skólann á undanförnum árum með von um framhald þess.

Þeir sem vilja fræðast meira um Sjávarútvegsskólann er bent á heimasíðu hans, http://www.unuftp.is/, en þar eru m.a. birtar upplýsingar um nemendur og verkefni þeirra.

Útskriftin verður á 4. hæð í Borgartúni 6, sal 2, og hefst kl 16:30 með ávarpi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar.


Fréttir