• NICe

Kanadamenn vilja samstarf um nýsköpun í sjávarútvegi

5.6.2009

Fulltrúar nýsköpunar-, rannsókna og sprotafyrirtækja í strandríkjum Kanada voru fjölmennir á ráðstefnu um nýsköpun í norrænum sjávarútvegi sem haldin var á Hótel Sögu 12. maí sl.

Koma þeirra endurspeglar þann vilja Íslendinga, sem nú fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, að styrkja samstarf við granna í vestri, ekki síst um nýsköpun og loftslagsmál. Ráðstefnugestir voru vel á annað hundrað frá tólf löndum.

Í framsöguerindum kom fram að óendanlega margir möguleikar væru á rannsóknum og nýsköpun í sjávarútvegi á norðurslóð. Eftirspurn eftir fiski og sjávarafurðum hefði aldrei verið meiri í heiminum, en á sama tíma færi allt of mikið af auðlindum hafsins til spillis.

Thorvald Gran, prófessor við Háskólann í Björgvin, benti í erindi sínu á að upplýsingatæknin hefði leitt til byltingar í rannsóknum og þekkingarmiðlun í sjávarútvegi. Með opnum hugbúnaði og nýsköpun hefðu svæðisbundin og alþjóðleg þekkingarnet þanist út og fjarlægðin milli fræðaheims og atvinnulífs orðið minni.

- En við megum ekki halda að öll nýsköpun sé góð - hún þarf líka ákveðið frelsi utan stofnanarammanna."

"Opin nýsköpun þýðir að miðla má þekkingu inn á markaðinn - og á sama hátt verða fyrirtæki og fræðaheimurinn að miðla sinni þekkingu. Ef of staðlaðar kröfur eru gerðar til nýsköpunar getur það hamlað framförum, sagði Gran. Hann benti líka á ýmis svæði væru að verða efnahagslegar grunneiningar í alþjóðlegu þekkingarhagkerfi, s.s. á sviði sjávarútvegs.  

Johannes Larsen, nýsköpunarráðgjafi hjá Rannsóknarráði Kanada, hvatti norræna ráðstefnugesti til að nota tækifærið og mynda tengsl við samstarfsaðila í strandríkjum Kanada og koma á samstarfi í nýsköpun og rekstri sprotafyrirtækja. Hann upplýsti að 21 einkafyrirtæki sem stuðluðu með stjórnvöldum að nýsköpun  væru við Atlantshafsströnd Kanada.

- Við höfum mikinn áhuga á samstarfi við norrænar stofnanir og fyrirtæki um nýsköpun, sagði Larsen.  

Ráðstefnan var haldin í samstarfi sjávarútvegsráðuneytisins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar og Matís.

Sjá ítarlegri frétt á vef Norðuratlantshafssamstarfsins, NORA


Fréttir