Rf gerir kennsluefni fyrir háskóla í Víetnam

21.3.2003

Rf og Sjávarútvegskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (SSþ) hafa gert samning um að Rf taki að sér að semja kennsluefni fyrir háskóla í Víetnam. SSþ tók til starfa fyrir 5 árum og hefur Rf séð um hluta kennslunnar við skólann.

Undanfarin fjögur ár hefur DANIDA (Danish International Development Assistance), sem er hluti af þróunarhjálp Dana, aðstoðað Víetnama við að koma á GÁMES kerfi í fiskiðnaði. Aðstoðin hefur aðallega falist í þjálfun og ráðgjafastörfum.

Í ljós hefur komið að þörf er á að auka menntun þeirra gæðastjóra sem starfa hjá fiskvinnslufyrirtækjum í Víetnam, þrátt fyrir að þeir séu háskólamenntaðir. Vegna þessa var leitað til SSþ og þar sem Rf hefur séð um þennan hluta kennslunnar var samið um að Rf tæki að sér að annast gerð kennsluefnis sem tengist vinnslutækni, gæða- og öriggismálum matvæla. Þetta efni verður síðan notað af Víetnömum við endurmenntun gæðastjóra fyrirtækjanna.

Nokkrir starfsmenn frá Rf munu fara til Víetnam í byrjun apríl vegna þessa verkefnis og starfa þar með fulltrúum DANIDA og víetnömskum háskóla.

Það voru þau Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf og Tumi Tómasson, fostöðumaður SSþ, sem undirrituðu samningin um gerð kennsluefnisins


Fréttir