Framtíðarþorskur

31.3.2003

Rf hefur hlotið styrk úr Tæknisjóði Rannís til verkefnis sem fengið hefur nafnið ”Framtíðarþorskur.” Markmið verkefnisins er að móta gæðakerfi við slátrun á eldisþorski, en reynslan hefur sýnt að aðstæður við slátrun skipta verulegu máli hvað gæði afurðanna varðar

Vaxandi áhugi er nú víða á þorskeldi og á undanförnum árum hafa nokkur útgerðarfélög hér á landi alið villtan undirmálsfisk í sjókvíum. Eldið stendur yfir í u.þ.b. hálft ár og að þeim tíma loknum hefur þorskurinn oft náð að vaxa um allt að 120%.

Þessi hraði vöxtur hefur þó ekki alltaf skilað þorski í nógu góðum gæðaflokki, t.d. hefur allt að helmingur sláturfisksins í sumum tilvikum farið í B flokk vegna losskemmda, þ.e. flökin verða laus í sér.

Ein ástæðan er sú að ekki er alltaf slátrað við bestu aðstæður og hefur það töluverð áhrif á gæði afurðanna. Þorskurinn hefur m.a. marist mikið eftir mikil sporðaköst við slátrun, en slík átök og streita fisksins getur valdið losi í holdi og rýrt gæði hráefnisins.

Í verkefninu "Framtíðarþorskur" verða rannsökuð áhrif sveltis og mismunandi aðferða við slátrun eldisþorsks á holdgæði hans. Markmiðið er að leitast við að koma á skýrum vinnureglum og móta ákveðið gæðakerfi við slátrun á eldisþorski sem byggt verður á niðurstöðum verkefnisins. Verkefnið er unnið í samvinnu við Útgerðarfélag Akureyringa h/f, Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf, Hnífsdal, Þórsberg ehf, Tálknafirði og Iðntæknistofnun Íslands (Matra). Verkefnisstjóri er Soffía Vala Tryggvadóttir.


Fréttir