Rf og Tækniháskólinn gera samstarfssamning

5.6.2003

Í gær var undirritaður samningur á milli Rf og Tækniháskóla Íslands um eflingu samstarfs um tækni og nýsköpun á sviði matvælavinnslu, gæða og öryggis matvæla. Ráðinn verður starfsmaður í reiknitækni fljótlega sem verður í hálfu starfi hjá hvorri stofnun

Samstarfið felur m.a. í sér að nemendur og kennarar við THÍ komi að rannsóknar- og þróunarverkefnum með sérfræðingum á Rf og að starfsmenn Rf koma að kennslu við THÍ, sérstaklega sem leiðbeinendur í nemenda- og rannsóknarverkefnum. Einnig er gert ráð fyrir að ráðinn verði sérfræðingur til starfa á sviði reiknitækni. Sérfræðingurinn verður í hálfu stöðugildi hjá hvorum aðila.

Það voru dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf, og Stefanía Karlsdóttir, rektor Tækniháskóla Íslands, sem undirrituðu samkomulagið. Fram kom í máli þeirra að um verulegan ávinning geti verið að ræða fyrir báða aðila og því ekki ólíklegt að um víðtækt samstarf geti verið að ræða er fram líða stundir.

Á Rf er þannig m.a. að finna víðtæka þekkingu á vinnsluferlum matvæla, þekkingu á þáttum er þarf að varast við hönnun og þróun vinnslutækja og ferla fyrir matvælaframleiðslu til að tryggja öryggi og gæði. Tækniháskólinn býður m.a. á móti upp á aðstöðu til kennslu og rannsókna, þekkingu á hönnun og framleiðslu tækjabúnaðar fyrir matvælaiðnað, þekkingu í líftækni og reiknitækni o.fl.


Fréttir