Velheppnaðri ráðstefnu lokið

15.6.2003

Í gær lauk TAFT-ráðstefnunni, sem staðið hefur yfir s.l. fjóra daga. Ráðstefnan þótti takast einkar vel og ríkti einhugur um að framhald yrði á þeirri alþjóðlegu samvinnu sem stofnað var til í Reykjavík. Rf hlaut mikið lof fyrir framkvæmd ráðstefnunnar

Eins og fram hefur komið var eitt af meginmarkmiðum ráðstefnunnar að koma á fót samskiptaneti (networking) á milli vísindamanna og aðila úr fiskiðnaði beggja vegna Atlantshafsins. Þótti þessi þáttur takast vel, þó svo nokkuð hafi skort upp á þátttöku aðila frá iðnaðinum, bæði innlendra og erlendra.

Reyndar kom það fram í máli nokkurra fyrirlesara á ráðstefnunni að þetta væri sá þröskuldur sem hvað erfiðastur væri, þ.e. að tengja betur iðnaðinn og þá sem vinna að rannsóknum og nýsköpun. Er þetta ekki eingöngu bundið við þessa atvinnugrein, þ.e. fiskvinnslu, heldur er einnig velþekkt vandamál í öðrum greinum.

Heimasíða TAFT-ráðstefnunnar verður áfram nýtt sem e.k. gagnagrunnur og þar mun á næstunni birtast sitthvað sem tengist ráðstefnunni. M.a. er stefnt að því að birta þar erindi flestra fyrirlesara ráðstefnunnar o.fl.


Fréttir