Ódýrara fóður til að draga úr kostnaði í þorskeldi

11.7.2003

Fóðurkostnaður í þorskeldi er mikill, enda er fóðrið að mestu leyti unnið úr hágæða fiskimjöli og lýsi. Hugsanlega er hægt að draga verulega úr þessum kostnaði án þess að það komi niður á gæðum fisksins. Nýtt verkefni á Rf hefur það að markmiði að rannsaka þetta.

Það fóður sem notað er í dag er að mestu leyti unnið úr hágæða fiskimjöli og lýsi, en ýmislegt bendir til að innihald fiskpróteina og fitu í fóðri fyrir þorsk sé óþarflega hátt og að lækka megi framleiðslukostnað verulega með því að nýta að hluta til prótein og fitu af öðrum uppruna og minnka þar með hlutfall hágæða fiskimjöls og lýsis í fóðrinu.

Í verkefninu “Fóður fyrir þorsk” (Feed for Atlantic cod) verður könnuð prótein- og orkuþörf þorsks á mismunandi aldursstigum. Markmið verkefnisins, er sem fyrr segir, að lækka hlut fóðurkostnaðar í þorskeldi. Verkefnið er unnið í samstarfi við helstu aðila sem koma að fóðurrannsóknum og fóðurgerð fyrir þorsk á Norðurlöndunum.

Ávinningur verkefnisins mun einkum felast í auknu verðmæti sjávarfangs og afraksturinn verður fóður sem tekur mið af næringar- og orkuþörf þorsks á mismunandi aldursstigum.

Verkefnið er styrkt af Norræna Iðnþróunarsjóðnum, en íslenskir þátttakendur eru, auk Rf, Fóðurverksmiðjan Laxá, Síldarvinnslan, Háskólinn á Akureyri, Hólaskóli, Útgerðarfélag Akureyringa og Primex. Erlendir samstarfsaðilar eru fóðurframleiðendur, háskólar, rannsóknastofnanir, fiskeldisfyrirtæki og útgerðarfyrirtæki í Noregi, Danmörku, Færeyjum og Svíþjóð.

Ábyrgðarmaður verkefnisins er Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf. (sími:895 2176)


Fréttir