Góður árangur af rannsóknum í lúðueldi

16.7.2003

Nýlega var lokið vinnu í verkefninu “Stýring örveruflóru í startfóðurkerjum lúðulirfa,” sem unnið í samvinnu Rf, Háskólans á Akureyri og Fiskey ehf. (Fiskeldis Eyjafjarðar). Verkefnið hlaut samtals 12 milljónir í styrk úr Tæknisjóði Rannís 2001-2003 og var það hæsti styrkur sem veittur var úr sjóðnum á því tímabili

Markmið verkefnisins var að minnka lífrænt álag í eldisumhverfi lúðulirfa í startfóðrun og voru vonir bundnar við að þessar aðgerðir gæfu möguleika á að halda efnanotkun í lágmarki án þess að það hefði neikvæð áhrif á afkomu lúðulirfanna.

Niðurstöður verkefnisins benda til að örveruflóra (bakteríur) og lífrænt álag almennt sé stærra vandamál og hafi meiri áhrif við startfóðrun lúðulirfa en áður var talið. Þá kom í ljós að hægt er að nota leir í stað þörunga og að leirinn minnkar lífrænt álag í startkerjum lúðulirfa.

Því hefur hingað til verið haldið fram að lúðulirfur fengju lífsnauðsynleg efni úr þörungum fyrstu dagana í startfóðrun og þar af leiðandi væri óhugsandi að sleppa þeim alveg. Í ljós kom að afföll lirfa verða aðeins fyrr í kerjum sem fá enga þörunga en leirinn hefur ekki áhrif á afkomu úr kerjunum.

Í dag er Fiskey ehf. hætt allri þörungaframleiðslu og notast eingöngu við ólífræna leirinn. Notkun leirs hefur í för með sér mikla hagræðingu og vinnusparnað og er því mikilvægt skref í þá átt að ná niður famleiðslukostnaði í lúðueldi. Þörungaræktunin var einn af stóru áhættuþáttunum í eldinu, þar sem lítið mátti út af bera svo að hún misfærist algerlega.

Niðurstöður í verkefninu sýndu jafnframt að skýr tengsl eru á milli bakteríuálags og gaparaprósentu í lirfum. Gaparar eru vanskapaðar lirfur sem drepast fljótlega eftir að kviðpokastiginu lýkur og startfóðrun lirfa hefst.

Vísbendingar eru um að sveiflur og óstöðugleiki í gæðum fóðurdýra hafi víðtækari áhrif á vöxt og afkomu lirfa en í upphafi var talið. Þær endurbætur sem gerðar voru á fóðurdýraræktun í kjölfar þessara rannsókna eru taldar grunnurinn að þeim góða árangri sem hefur náðst hjá Fiskey ehf. upp á síðkastið, en metárangur náðist í seiðaframleiðslu síðustu tveggja lirfuhópa.

Tilraunir með notkun góðra baktería (probiotika) í eldinu lofuðu góðu og gáfu sterklega til kynna að tiltekin blanda probiotika baktería geti haft jákvæð áhrif í eldinu. Töluverður umhverfislegur og efnahagslegur ávinningur er fólginn í því að lífrænn úrgangur frá eldinu hefur minnkað til muna eftir innkomu leirsins. Lifandi og dauðum þörungum er ekki lengur dælt í sjóinn, heldur einungis ólífrænum leir og sjó sem inniheldur töluvert minna af bakteríum en áður.

Umsjónarmaður verkefnisins var Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf.
(sími: 895 2176)


Fréttir