• Solvaafurdir

Alíslensk kryddlegin söl

14.2.2010

AVS verkefninu Vöruþróun á kryddlegnum og maukuðum sölvum er nú lokið. Verkefnið snérist um að ljúka vöruþróun á framangreindri vöru.

Söl hafa verið nýtt á Íslandi frá landnámi. Sölvatekja var langmest sunnan- og vestanlands. Mjög mikil verslun var með sölin bæði frá Suðurlandi, Faxaflóasvæðinu og Breiðafirði. Neysla á sölvum hefur haldist fram á daginn í dag, en er aðeins brot af því sem áður var. Söl hafa vafalítið haft góð áhrif á heilsu þjóðarinnar, ásamt ætihvönn, fjallagrösum og skarfakáli. Eiginleikar sölvanna hafa lítið verið rannsakaðir t.d. næringargildi eða hæfileg verkun.

Íslensk hollusta ehf (áður Hollusta úr hafinu ehf) hefur verkað og selt söl undanfarin ár bæði fyrir innlendan markað og flutt svolítið út. Félagið hóf þróun á kryddlegnum sölvum árið 2006. Viðbrögð við vörunni hafa sýnt að um sérstaka og mjög áhugaverða vöru er að ræða. Kryddlegin söl voru fyrst kynnt á sýningunni Matur 2006. Síðan þá hefur varan verið seld í litlu magni til hótela og veitingahúsa. Þá hefur hún verið kynnt og seld á vörusýningu í Fífunni 2007 og á útimörkuðum undanfarin ár. Á kynningum hafa 80-90% þeirra sem prófuðu hana verið mjög hrifnir af henni.

Íslensk hollusta ehf. fékk Matís til samstarfs við sig til að ljúka vöruþróun á kryddlegnu sölvunum og styrk frá AVS til þess. Gerðar voru prófanir á marineringu í nokkrum algengum efnum þ.e. olíu, soja-sósu, ediki, mysu og saltpækli. Marienering svipuð því sem Íslensk hollusta ehf hafði notað reyndist best, en prófanir sýndu að verulega var hægt að bæta vinnsluferlið til að besta vöruna með tilliti til útlits, bragðs og geymsluþols. Kryddlegin söl eru nú áhugaverð vara með fallegt útlit og gómsætt bragð. Áhugavert verður að sjá hvernig markaðurinn tekur við þessari nýjung.

Íslensk hollusta ehf. (áður Hollusta úr hafinu ehf.) var stofnuð 2005. Félagið framleiðir ýmsar alíslenskar hollustuvörur, sem seldar eru á íslenskum heilsumarkaði, í ferðamannaverslunum og til innlendra og erlendra hótela og veitingahúsa. Í haust hlaut félagið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði samtaka iðnaðarins, sjóði Kristjáns Friðrikssonar í Últímu, fyrir frumlegar nýstárlegar, alíslenskar vörur.

Nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá Eyjólfi Friðgeirssyni, hollustaurhafinu@simnet.is og Þóra Valsdóttir, thora.valsdottir@matis.is.


Fréttir