Rf og Hólaskóli undirrita samstarfssamning

11.9.2003

Í vikunni var undirritaður samstarfssamningur milli Rf og Hólaskóla á sviði rannsókna og kennslu í fiskeldi og tengdum greinum. Samningnum er ætlað að mæta vaxandi þörf fyrir menntun á háskólastigi á þessu sviði

Háskólinn að Hólum í Hjaltadal hefur verið í forystu hvað varðar rannsóknir og kennslu á þessu svið hér á landi, t.d. býður skólinn nú upp á bæði starfstengt grunnnám sem og BS-nám í fiskeldi. Stefnt er að því að efla háskólakennslu og rannsóknir á þessu sviði enn frekar, m.a. með aukinni áherslu á eldi sjávarlífvera.

Rf hefur um áratuga skeið stundað rannsóknir á nýtingu sjávarfangs hér á landi og á stofnuninni er því að finna mikla reynslu af því hvernig best er að auka verðmæti, gæði og öryggi sjávarfangs. Rf er nú þegar í víðtæku samstarfi við aðra háskóla, bæði á Íslandi og erlendis og sérfræðingar Rf eru þátttakendur í fjölda alþjóðlegra verkefna.

Samstarfssamningurinn kveður einkum á um að kennarar og nemendur Hólaskóla munu vinna að rannsóknar- og þróunarverkefnum með sérfræðingum Rf og að Rf muni koma að kennslu við skólann, einkum hvað varðar leiðsögn við nemenda- og rannsóknarverkefni. Mikilvægur þáttur í samstarfinu felst í að ráðinn verður sameiginlegur starfsmaður sem vinna mun að rannsóknum á vegum beggja aðila samningsins.

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf og Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla, undirrituðu samninginn.

Heimasíða Hólaskóla.


Fréttir