Árlegri úttekt á Rf lokið

29.9.2003

Árleg úttekt SWEDAC á gæðakerfi og faggildingu þjónustusviðs Rf fór fram í síðustu viku. Úttektaraðilar heimsóttu að þessu sinni útibú Rf í Vestmannaeyjum og í Neskaupstað auk þess sem úttekt var gerð á þjónustusviði Rf í Reykjavík

Árlega er gerð úttekt af þessu tagi, þar sem ýmis atriði í starfseminni eru könnuð, einkum þau er varða faggildingu mælinga. Úttektaraðilar gerðu nokkrar athugsemdir, eins og eðlilegt má teljast og er miðað við að gerðar séu lagfæringar á þeim atriðum sem betur mega fara innan tveggja mánaða frá úttektinni.

Það er ánægjulegt að greina frá því að matsaðilarnir voru í heildina ánægðir með það sem þeir sáu, sérstaklega starfsfólk Rf, sem þótti sýna mikinn áhuga og vilja til að standa vel að gæðakerfinu. Það er einna helst að erfiðlega hefur gengið að sýna skráningu kvartanna sem athugasemdir voru gerðar við.

Rf hefur komið upp aðgengilegu kerfi til að skrá athugsemdir á innri vef stofnunarinnar, en þrátt fyrir það eru skráningar allt of fáar. Raunar er þetta reynsla margra annarra sem eru með gæðakerfi.

Rf vill því koma þeim skilaboðum til viðskiptavina sinna að senda okkur tölvupóst (heida@rf.is) eða hringja í síma 530 8600 og láta okkur vita af öllu sem betur má fara í þjónustu okkar, sérstaklega það sem varðar gæði, niðurstöður, útlit mæliblaða og svo mætti lengi telja. Við tökum því fagnandi.


Fréttir