• HI_vefur

Háskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning

19.3.2010

Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni.

Háskóli Íslands og Matís ohf. undirrituðu í gær samning um að efla verklega kennslu og vísindastarf á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis.  Hugmyndin með samningnum er að efla fræðilega og verklega menntun nemenda Háskóla Íslands og auka rannsóknir á framangreindum sviðum. Þá er markmiðið að nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna en Háskólinn og Matís hyggjast kaupa og reka sameiginlega ýmiskonar búnað til rannsókna.

Háskóli Íslands og Matís ætla sér með samstarfinu að vera í fararbroddi í nýsköpun á þeim fræðasviðum sem tengjast matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi. Með samningnum mun verkleg leiðbeining meistara- og doktorsnema Háskóla Íslands fara fram hjá Matís en hugmyndin er að tryggja að gæði rannsókna hjá HÍ og Matís séu sambærileg við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi á framangreindum fræðasviðum.

Með samstarfinu á einnig að tryggja faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi. Þá er ætlunin er að fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni.

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni.  Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við HÍ að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2011, þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu doktorsnáms, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki  eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Í gær varð Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, jafnframt gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og var samningur þess efnis undirritaður. Markmið samningsins er að styrkja kennslu og rannsóknir í matvælafræði.

Meðfylgjandi er mynd frá undirskrift samningana í gær

Háskóli Íslands og Matís undirrita samstarfssamning: Markmiðið að vera í fararbroddi í nýsköpun í matvælafræði, matvælaverkfræði og líftækni

Fremri röð frá vinstri: Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís og gestaprófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Aftari röð frá vinstri: Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri Kennslusviðs Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu Háskóla Íslands, Ingibjörg Gunnarsdóttir, varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands, Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís, Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís, Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísindasviðs Háskóla Íslands.


Fréttir