Þrifavæn hönnun - öruggari matvæli

10.10.2003

Rf hefur nýlega gerst aðili að samtökum sem nefnast European Hygienic Engineering & Design Group (EHEDG), en samtök þessi vinna m.a. að því að auka öryggi í matvælaframleiðslu og við pökkun matvæla.

EHEDG samanstendur af fyrirtækjum sem framleiða tæki sem notuð eru við matvælaframleiðslu, matvælafyrirtækjum, rannsóknastofnunum og heilbrigðisyfirvöldum í Evrópu. Má t.d. geta þess að fyrirtæki á borð við Tetra Pak og Unilever eru aðilar að samtökunum. EHEDG, sem var stofnað 1989, starfar í samvinnu við álíka samtök í N-Ameríku.

Tilgangur EHEDG er m.a. sá að gefa út leiðbeiningar um hönnun á húsnæði og vinnslubúnaði fyrir matvælavinnslur m.t.t. þrifa og að auka skilning matvælaframleiðenda á mikilvægi hreinlætis við vinnslu matvæla.

ESB hefur gefið út ýmsar tilskipanir um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla við framleiðslu á matvælum, ekki síst atriði er lúta að hreinlæti. Það er svo ábyrgð matvælaiðnaðarins að sjá til þess að farið sé eftir þessum kröfum.

ESB hefur m.a. kallað eftir samræmingu á stöðlum sem gilda eiga um hönnun á tækjabúnaði til að tryggja framleiðslu á öruggum og heilnæmum matvælum og hefur falið Evrópsku staðlasamtökunum (CEN) að sjá um gerð slíkra staðla. EHEDG hefur einmitt komið talsvert að þeirri vinnu, enda hefur EHEDG þegar gefið út 25 leiðbeiningar um hönnun tækjabúnaðar.

Verkefni á Rf sem tengjast hönnun vinnslubúnaðar og hreinlæti:

Verkefni 1531
Verkefni 1550
Verkefni 1565

Nánari upplýsingar veitir Birna Guðbjörnsdóttir, birna@rf.is s: 530 8608


Fréttir