• United Nations University-Fisheries Training Programme

Doktorsvörn frá Matvæla- og næringarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands

23.6.2010

Miðvikudaginn 30. júní kl. 15.00 fer fram doktorsvörn frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.  Þá ver Mai Thi Tuyet Nga matvælafræðingur doktorsritgerð sína. Vegna breytinga á hátíðasalnum fer vörnin frami í sal 105 á Háskólatorgi. 

Yfirlit

„Efld gæðastjórnun á ferskum fiski með bættri vörustjórnun og rekjanleika frá veiðum og til neytenda.“ (Enhancing quality management of fresh fish supply chains through improved logistics and ensured traceability) er heiti doktorsritgerðarinnar.

Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í sal 105 á Háskólatorgi og hefst kl. 15:00.

Andmælendur eru Dr. Morten Sivertsvik , "Forskningsleder" við Nofima í Stavanger og Dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Leiðbeinendur og í doktorsnefnd voru eftirfarandi Sigurjón Arason dósent við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís ohf, Dr. Gunnar Stefánsson dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild við Háskóla Íslands, Dr. Sigurður G. Bogason sérfræðingur við Háskóla Íslands og Dr. Sveinn Margeirsson sviðstjóri hjá Matís ohf.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna veitti Mai Thi Tuyet Nga námsstyrk og Matís ohf. veitti rannsókn hennar aðstöðu. Rannsóknin tilheyrði verkefnunum CHILL-ON (project no. FP6-016333-2) styrkt af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins og Hermun kæliferla sem er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.  

Ágrip úr rannsókn: „Efld gæðastjórnun á ferskum fiski með betri skipulagningu og rekjanleika frá veiðum og til neytenda.“

Markmið verkefnisins var að: Efla gæðastjórnun á ferskum fiski með betri skipulagningu og endurbættum rekjanleika frá veiðum og til neytenda.  Hluti af rannsóknunum var að fá yfirlit yfir þekkingu forstöðumanna fyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi á rekjanleika og kostnaðarmeðvitund þeirra á vali flutningaleiða og umbúða við ákvörðunartöku um val  á flutningaferlum fyrir sjávarafurðir.  Greining flutningaferla var nauðsynlegur hluti verkefnisins til þess að fá heildaryfirlit yfir stöðu greinarinnar  og flutningaferlanna. Niðurstaða greiningarinnar leiddi í ljós hvaða hlekki aðfangakeðjunnar væri hægt að bæta m.t.t. geymsluþols, verklags, búnaðar, umhverfisáhrifa o.fl.  Í verkefninu var rannsakað hvernig hitastig þróast í gegnum flutningakeðjuna bæði fyrir flug og sjó; flakavinnslu, forkælingu, áhrif mismunandi umbúða, - virkni geymslna og gáma og einnig við tilfærslur vöru í keðjunni.  Niðurstöður þessara verkþátta verkefnisins voru notuð til að meta hitaálag, sem afurðirnar urðu fyrir í ferlunum og notaðar til að spá fyrir um geymsluþol.  Afrakstur verkefnisins verður notaður við að taka ákvarðanir um hvaða ferla eigi að lagfæra í aðfangakeðjunni svo að það komi að mestu gagni við bestun á heildarferlinu. 

Kostir og gallar flug- og sjóflutnings fyrir ferskan fisk voru greindir.  Niðurstöður hitakortlagningar sýndu fram á mun stöðugra hitastig í gámaflutningi með skipum en með flugflutningi.  Einkum er hætta á hitaálagi í flugflutningskeðjum þegar vara flyst milli ólíkra hlekkja kælikeðjunnar.  Aðrir þættir aðfangakeðjunnar, sem geta haft áhrif á gæði og geymsluþol ferskfisks er forkæling fyrir pökkun, staðsetning kassa á bretti í tilfelli illa hitastýrðra kælikeðja og lengd keðjanna. 

TTI (Time Temperature Indicators) var einnig greint í verkefninu þar sem búnaður var prófaður fyrir ferskar fiskafurðir og notkun hans til að meta gæðamörk afurða. Gerðar voru prófanir á TTI í geymslutilraunum til að sannreyna hvort hraði gæðabreytinga afurða væru í samræmi við virkni TTI búnaðarins.

Doktorsritgerðin er byggð á sex vísindagreinum, þar af er ein grein nú þegar birtar í alþjóðlegu vísindariti og þrár aðrar samþykktar.

Mai Thi Tuyet Nga er fædd 23. desember 1971 í Víetnam. Hún lauk B.Sc. gráðu við  Department of Aquatic Products Processing Technology at Kaliningrad State Technical University (KGTU), Kaliningrad, Russian Federation árið 1995 og M.Sc. gráðu við „Faculty of Aquatic Products Processing”, Nha Trang University (NTU), Nha Trang, Vietnam árið 2000.  Mai Thi Tuyet Nga hefur verið kennari í matvælafræði síðan 1996 við Nha Trang University (NTU).  Mai Thi Tuyet Nga er gift Tran Quang Hung og þau eiga tvær dætur Tran Mai Linh og Tran Mai Khanh Huyen.

Mai Thi Tuyet Nga, sími: 00-354-8987821; 00-84-914074318   tölvupóstfang: maiceland@yahoo.com

Sigurjón Arason, aðalleiðbeinandi,  mailto:go@hi.is sigurjar@hi.is  (sími: 8585117)


Fréttir