• Vatnsaflsvirkjun

Notkun á innlendri orku eingöngu til framleiðslu á fiskimjöli - rafþurrkun á fiskmjöli

10.8.2010

Nýlega hófst verkefni sem miðar að því að nýta rafmagn til að hita loft fyrir þurrkun á fiskmjöli á hagkvæman hátt.  Með því móti væri mögulegt að ná því markmiði sjávarútvegsins að nýta eingöngu innlenda orku við framleiðslu fiskmjöls og draga verulega úr innflutningi á olíu til landvinnslu.

Flestar íslensku fiskmjölsverksmiðjurnar voru byggðar á síldarárunum (1950-1965). Á þeim árum var orðið orkusparnaður nær óþekkt hugtak og olíuverð lágt, miðað við það sem það er nú til dags. Í fiskimjölsiðnaðinum hafa verið notaðir eldþurrkarar, loftþurrkarar og gufuþurrkarar. Notkun á eldþurrkurum fer þó minnkandi, þar sem bæði loft og gufuþurrkarar skila auknum gæðum í lokaafurð ásamt því að vera hagkvæmari í rekstri með tilliti til umhverfismengunar, orkunotkunar og vinnslustjórnunar.

Í verkefninu er ætlunin að skipta út búnaði sem hitar loft fyrir óbeina loftþurrkara. Eins og staðan er nú til dags er loft hitað með því að brenna olíu í umframmagni af lofti og hita upp hringrásað þurrkloft í varmaskipti. Þar sem olíuverð hefur hækkað undan farin ár vegna gengisbreytinga og hækkunar á heimsmarkaði hafa forsendur þess að nota olíu breyst. Einnig hefur aukin umhverfisvitund ýtt undir notkun endurnýtanlegra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. Mikill munur er á orkukostnaði á milli rafhitarans og eldsneytishitarans, því er talið að töluverður fjárhagslegur sparnaður sé fólginn í því að nota rafmagn til þurrkunar í stað svartolíu.

Rafvæðingu fiskmjölsverksmiðja felur einnig í sér  tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg að taka afgerandi forystu á heimsvísu í loftslagsmálum. Þannig reiknar aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum með að með rafvæðingu fiskmjölsframleiðslunnar mætti spara losun gróðurhúsalofttegunda upp á 25-50 Gg, en samkvæmt henni þarf það markmið að nást fyrir árið 2020.

Þátttakendur í verkefninu eru Héðinn hf., HB-Grandi hf. og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs. Verkefnistjóri er Gunnar Pálsson hjá Héðinn hf.   

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason hjá Matís ohf., sigurjon.arason@matis.is.

Fréttir