Breytileiki í eiginleikum makríls

16.8.2010

Makríll hefur á síðustu árum veiðst í miklu magni innan íslenskrar lögsögu.  Nýlega hófst verkefni þar sem aflað verður þekkingar um breytileika í efna-, eðlis- og vinnslueiginleikum makríls.

Mat á breytileika í eiginleikum makríls eftir árstíma og geymsluaðstæðum
Markmiðið er að byggja upp þekkingargrunn sem nýtist til að bæta nýtingu og verðmæti makríls sem veiðist á Íslandsmiðum.

Hlýnandi sjór við strendur Íslands er talin meginástæða þess að makríll gengur í auknum mæli inn í íslenska lögsögu.  Staða stofnsins er ágæt og verði hann nýttur til framtíðar með ábyrgum hætti mun hann skila af sér miklum verðmætum.  Meirihluti aflans er í dag nýttur í mjöl- og lýsisvinnslu, en aðeins lítill hluti aflans er í dag notaður til manneldis. 

Aukin þekking á ástandi og vinnslueiginleikum makríls eftir árstímum og veiðisvæðum mun nýtast til að koma á skilvirkari flokkunar á aflanum, til að bæta meðhöndlun aflans og til að auðvelda ákvarðanatöku um vinnsluleiðir.  Til þess að ná góðum árangri við nýtingu makríls til manneldis í landi þarf að beita réttu verklagi við veiðar, við kælingu aflans og að viðhalda geymsluhitastigi frá veiðum og þar til vinnsla hefst.  Aukning í vinnslu makríls til manneldis mun skila auknum verðmætum samanborið við mjöl- og lýsisafurðir. 

Þátttakendur í verkefninu eru Síldarvinnslan hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., HB Grandi hf., Vinnslustöðin hf., Eskja hf., Skinney – Þinganes hf., Samherji hf., Gjögur hf., Loðnuvinnslan h.f, Huginn ehf og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs.  Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, sigurjon.arason@matis.is, og Kristín Anna Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is, Matís ohf.


Fréttir