• Logo Matís

Starfsmaður Matís tilnefndur til Fjöreggs MNÍ 2010

26.10.2010

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands hefur veitt verðlaun fyrir lofsvert framtak á matvælasviði árlega frá árinu 1993 á Matvæladegi MNÍ.

Maturinn er mannsins megin - Fjöregg MNÍ 2010

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (www.mni.is) hefur veitt verðlaun fyrir lofsvert framtak á matvælasviði árlega frá árinu 1993 á Matvæladegi MNÍ. Verðlaunagripurinn er íslenskt glerlistaverk sem táknar Fjöreggið og eru verðlaunin veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins.

Að þessu sinni barst MNÍ fjöldi ábendinga um verðuga verðlaunahafa og eru fimm af þeim tilnefndir til Fjöreggsins. Það kemur síðan í hlut dómnefndar að velja verðlaunahafann úr þeim tilnefningum. Í dómnefndinni sitja Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Erla Gerður Sveinsdóttir læknir á Heilsustofnun NLFÍ og Heilsuborg, Jón Gíslason forstjóri Matvælastofnunar og Valentína Björnsdóttir framkvæmdastjóri Móður náttúru ehf.

Við setningu matvæladagsins verður tilkynnt hver hlýtur Fjöreggið og mun Orri Hauksson formaður dómnefndar afhenda vinningshafa verðlaunagripinn.

Eftirfarandi eru tilnefndir til Fjöreggs MNÍ 2010:

Fjörostur
Fjörostur frá MS kom á markað á síðasta ári, sem er umhverfisvæn nýsköpun og nýr valkostur í mögrum mjólkurafurðum. Við framleiðsluna er stuðst við nýja tækni, fjölþrepa örsíun, sem gerir kleift að nýta mysu sem annars fellur til við ostagerð og framleiða úr henni mysupróteinþykkni. Það hefur m.a. þá eiginleika að gefa vöru mýkt og rúnnað bragð,  en Fjörostur inniheldur einungis 9% fitu og er fituminnsti brauðosturinn á markaðnum í dag. Fjörosturinn dregur nafn sitt af Fjörmjólk, sem einnig er fitulítil og próteinrík afurð.

Ólafur Reykdal matvælafræðingur
Ólafur Reykdal, matvælafræðingur og starfsmaður hjá Matís, er tilnefndur fyrir þátttöku sína í rannsóknum á íslenski byggi til manneldis. Hann hefur um árabil verið í forsvari fyrir rannsóknir á næringarefnainnihaldi og eiginleikum byggs og unnið að gæðakröfum til viðmiðunar fyrir notkun á byggi í matvælaframleiðslu og bjórgerð. Þessar rannsóknir hafa stutt við nýsköpun og frumkvöðlastarf í ræktun, vinnslu og á framleiðslu á afurðum úr byggi. 

Saffran veitingastaðir
Veitingastaðurinn SAFFRAN opnaði á síðasta ári á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. SAFFRAN býður upp á heilsusamlegan, ferskan og framandi mat á lágu verði. Notað er að mestu íslenskt hráefni við matargerðina og er allt brauðmeti bakað á staðnum. SAFFRAN er áhugaverður nýr valkostur á veitinga- og skyndibita markaðnum, sem hefur náð til ungs fólks og notið vinsælda allt frá opnun.

Lýsi hf.
Lýsi á sér langa sögu í framleiðslu á lifrarlýsi. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum vaxið og dafnað á grundvelli vöru- og markaðsþróunar og er nýleg verksmiðja þeirra ein sú fullkomnasta í heimi. Lýsi framleiðir margar tegundir lýsisafurða, fæðubótarefna og fjörefna, fyrir kröfuharða viðskiptavini jafnt innanlands sem erlendis. Lýsi er stærsti einstaki framleiðandi og söluaðili að fæðubótarefnum á innanlandsmarkaði.

Matvælaskólinn hjá Sýni
Á undanförnum árum hefur Rannsóknaþjónustan Sýni ehf þróað námskeið fyrir starfsmenn í matvælafyrirtækjum og mötuneytum. Matvælaskólinn hjá Sýni hefur haft gæðastjórnun, gæðaeftirlit og öryggi matvæla í öndvegi og jafnframt er lögð áhersla á námskeiðahald til að auka fjölbreytni og hollustu máltíða. Matvælaskólinn hefur í samstarfi við hagsmunaaðila atvinnulífsins þróað nýjar námsleiðir fyrir starfsmenn matvælaiðnaðar og aðlagað námskeiðahald að þörfum fyrirtækja.


Fréttir