• HI_vefur

Ensím klippir fjölsykrur frá nýjum enda

12.11.2010

Mánudaginn 15. nóvember nk. mun Jón Óskar Jónsson, starfsmaður Matís, halda fyrirlestur um meistaraverkefni sitt hjá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Verkefnið ber heitið „β-Glucan Transferases of Family GH17 from Proteobacteria“ og fólst í rannsóknum á sérstakri gerð ensíma sem ummynda glúkan fjölsykrur með rofi samfara sykruflutningi.

Prófdómari er Dr. Jón M. Einarsson, rannsókna- og þróunarstjóri hjá Genis ehf. Umsjónkennari og leiðbeinandi var Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ og sviðsstjóri hjá Matís ohf. Meðleiðbeinandi var Dr. Ólafur H. Friðjónsson verkefnastjóri hjá Matís ohf.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 130 í Öskju og hefst klukkan 16.00.

Útdráttur
Ensím sem tilheyra fjölskyldu GH17 í flokkunarkerfi sykrurofsensíma voru rannsökuð úr þremur tegundum baktería: Methylobacillus flagellatus KT, Rhodopseudomonas palustris og Bradyrhizobium japonicum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að slík ensím úr Proteobakteríum sýna transferasa virkni, þ.e. þau klippa β-glúkan fjölsykrur og skeyta bútum á enda þega-sykra með myndun nýrra 1,3 tengja eða mynda greinar með β1,4 eða β1,6 tengjum. Gen ensímanna voru klónuð og tjáð í E. coli. Ensímin voru tjáð sem MalE samruna prótein, en eftir framleiðslu og hreinsun var MalE hlutinn klipptur af með sérvirkum Ulp1 proteasa. Ensímin voru skilgreind með tilliti til virkni þeirra á laminarin fásykrur. Myndefni voru skilgreind með tilliti til stærðar og tengjagerðar með fjölbreyttri aðferðafræði, TLC, Maldi-TOF, electrospray og NMR.  Niðurstöður rannsóknanna leiddu í ljós að tvö þessara ensíma, úr Rhodopseudomonas palustris og Methylobacillus flagellatus KT mynda β(1-3) tengi og eru því lengingarensím. Ensímið úr Bradyrhizobium japonicum sýndi β(1-6) transferasa virkni og er því greinamyndunar-ensím (branching). Unnt var að sýna fram á að ensímið klippir fjölsykrur frá afoxandi enda (reducing end) fjölsykruhvarfefnanna, öfugt við þau bakteríuensím sem hingað til hafa verið rannsökuð. Sá eiginleiki ætti að gera ensíminu úr Bradyrhizobium japonicumkleift að búa til fásykruhringi úr β-glúkan fjölsykrum.

Nánari upplýsingar veitir Jón Óskar, jon.o.jonsson@matis.is.


Fréttir