• Chill_on_logo

Hitastýring í gámaflutningi ferskra fiskafurða

5.12.2010

Í sumarverkefninu Hitastýring í gámaflutningi ferskra fiskafurða, sem unnið var í samstarfi Eimskips og Matís, var hitadreifing í kæligámum mæld og verklag við hleðslu kæli- og frystigáma, sem eru notaðir bæði við flutning á ferskum og frystum vörum, var tekið út.

Hitastýringin sem skoðuð var í verkefninu snýr að geymslu og flutningi á ferskum fisk en hann er mun viðkvæmari fyrir hitasveiflum en fryst vara. Því er mikilvægt að umhverfishita afurðanna í gámnum sé vel stýrt gegnum flutningaferlið.  Niðurstöður Evrópuverkefnisins Chill on og AVS verkefnisins Hermun kæliferla sýna að með vel hitastýrðum sjóflutningi má ná fram mun lengra geymsluþoli  sjávarafurða en fæst í síður hitastýrðum flugflutningskeðjum.

Niðurstöður mælinga sýndu að hitadreifing innan gáma er háð verklagi við hleðslu þar sem loftflæði í gám er misjafnt eftir hleðslumynstri. Hitadreifing í gámum er ekki einsleit og almennt er kaldara við botn og nær kælivél en heitara við loft gáms og næst hurð. Mælingar sýndu einnig að hitastig innan gáms sveiflast með umhverfishita þegar heitt er úti. Taka ber fram að mælingarnar voru gerðar að sumarlagi.

Kæligámar eru hannaðir til að viðhalda lágu loft- og vöruhitastigi innan gámsins en ekki til að kæla niður vörur. Niðurstöður mælinga sýndu fram á mikilvægi forkælingar vöru fyrir hleðslu í gáma en ef henni er hlaðið of heit tekur langan tíma að ná kjörgeymsluhita . Í verkefninu voru skoðaðar mismunandi gámagerðir með það að markmiði að greina hvaða gámagerð henti best til flutninga á ferskum fisk en þar er lágt og stöðugt hitastig mikilvægt. Greina mátti fylgni milli frammistöðu mismunandi gáma og aldurs þeirra.

Hermun kæliferla er einnig styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís (TÞS) og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson.


Fréttir