• Skjaldarmerki

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitti í dag viðtöku skýrslu Matís um hámörkun aflaverðmætis smábáta

30.12.2010

Verkefnið "Smábátar - Hámörkun aflaverðmætis" er stutt er af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Auk skýrslunnar hefur starfshópur verkefnisins gefið út bækling og einblöðunga sem dreift hefur verið til allra smábátasjómanna.

Þá er lagt til að verkefninu verði enn fremur fylgt eftir með námskeiðshaldi.

Afli smábáta hefur burði til að vera besta hráefni sem völ er á, þar sem varla er hægt að hugsa sér ferskari fisk en afla dagróðrabáta sem veiða á línu eða handfæri.  Röng meðhöndlun getur hins vegar haft þau áhrif að ekki er unnt að vinna aflann í verðmætustu afurðirnar.  Oft á tíðum þarf þó tiltölulega litlar breytingar á vinnubrögðum til að tryggja að afli smábáta standi undir merkjum sem fiskur af hámarks gæðum.

Smábátar - Hámörkun aflverðmætis

Í tillögum skýrsluhöfunda er horft til þriggja þátta:
Í fyrsta lagi til aukinnar þekkingar allra aðila í virðiskeðju smábátafisks. Á sl. ári voru veiðar stundaðar á rúmlega eitt þúsund smábátum við Ísland og þarf engan að undra að þekking og vinnubrögð á þeim séu breytileg. Auk þess sem þegar hefur verið gert með fyrrnefndri bæklingaútgáfu, blaðaskrifum og erindum á fundum telja skýrsluhöfundar að námskeiðshald meðal smábátasjómanna og annarra sem að málinu koma skili bestum árangri. Stungið er upp á námskeiðum á völdum stöðum víðsvegar um landið og er æskilegt að auk Matís, komi að því verkefni Landssamband smábátaeigenda, Matvælastofnun, Fiskistofa og Reiknistofa fiskmarkaða.

Í öðru lagi þarf að horfa til tæknilegrar útfærslu um borð í smábátum. Plássleysi um borð getur að nokkru leyti staðið í vegi fyrir bestu mögulegu aflameðferð en úr því er hægt að bæta. Mikilvægt er að um borð sé fullkomin aðstaða til blóðgunar með sírennsli af hreinum sjó. Þá er áhersla lögð á kælingu og að aflinn verði ekki fyrir óþarfa hnjaski, hvort sem er við geymslu eða löndun. 

Í þriðja lagi benda skýrsluhöfundar á mikilvægi þess að sjómenn sem vanda frágang njóti góðra gæða í formi hærra verðs á markaði. Í því sambandi er bent á mikilvægi hitastigsmælinga við löndun, stærðarflokkunar og frágangs. Jafnframt þarf að tryggja sem best rekjanleika og upplýsingagjöf með öllum afla.

Tillögur þessar eru í samræmi við það sem fram kemur í skýrslu starfshóps á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um bætta nýtingu bolfisks þar sem fjallað er sérstaklega um nýtingu ísfiskafla. 

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.

Bæklingar og einblöðungar í tengslum við verkefnið:

Nánari upplýsingar um samstarfið veita Jónas R. Viðarsson og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.


Fréttir